Dawn of the Dead (1978)

Uppvakningar við hæfi barna

19. ágúst 2014


Uppvakningar eru okkur hugleiknir þessa dagana enda höfum við unnið hörðum höndum að gerð umbúða og auglýsinga fyrir Zombís frá Kjörís. Uppvakningar eru í eðli sínu ógeðslegir og því var það mikil kúnst að gera þá barnvæna. Hins vegar má ekki gleyma því að mörg börn hrífast af óhugnaði og gættum við þess því líka að sótthreinsa þá ekki um of.

Hinir lifandi dauðu, hvort sem þú kallar þá uppvakninga, zombía eða annað, hafa dúkkað upp í sögum og myndmáli mannanna mun lengur en mann gæti grunað. Hugtakið á rætur sínar að rekja til Haítí en orðið „zombie“ var fyrst notað árið 1819, svo vitað sé. Þá er uppvakningakvikmyndin rúmlega áttatíu ára gömul, en spekingar eru á því að kvikmyndin White Zombie (1932) sé sú fyrsta þar sem fyrirbærið kemur við sögu.

36 árum síðar kom kvikmyndin Night of the Living Dead (1968) út og ekki sér enn fyrir endann á því zombímyndaflóði sem kvikmyndin setti af stað. Hún kostaði ekki nema 114 þúsund dollara í framleiðslu, en það rétt svo nægði fyrir kókflösku og lakkrísröri á þeim tíma. Myndin skilaði hins vegar um 30 milljón Bandaríkjadölum í kassann – rúmlega 260 sinnum það sem kostaði að gera hana. 

Svo hugfangin var heimsbyggðin af þessum hægfara heilaætum að allir og ömmur þeirra fóru að búa til uppvakningamyndir. Leikstjóri Night of the Living Dead, George A. Romero, lét heldur ekki staðar numið og tíu árum síðar sendi hann frá sér framhaldsmyndina Dawn of the Dead (1978). Hún átti lítið skylt við fyrri myndina, nema zombíana að sjálfsögðu, en hún gaf tóninn fyrir nútímalegri zombímyndir og var ekkert til sparað í gerviblóði og innyflum.

Myndirnar urðu svo margar að hluta til vegna þess hversu ódýrt var að búa þær til. Það var í raun nóg að eiga frænda sem vann í sláturhúsi, hafa aðgang að 16mm kvikmyndatökuvél og svo voru bréfberinn og stelpan í næsta húsi ráðin í helstu hlutverk.

Zombi 2 (1979)Síðan liðu rúmir tveir áratugir og uppvakningamyndir komu og fóru. Öllum var í raun sama um þær nema bólugröfnum þungarokkurum með unglingaveiki. Já og Páli Óskari. En allt fer í hringi og árið 2002 kom kvikmyndin 28 Days Later út. Hún er líklega ein af örfáum zombímyndum sem Óskarsverðlaunaleikstjóri hefur gert, þó að Danny Boyle hafi að vísu fengið styttuna sína sjö árum síðar. 

Kvikmyndin kostaði skít og kanil en varð vinsæl og í kjölfarið fór að bera á auknum áhuga almennings á uppvakningakvikmyndum. Allt í einu voru þær farnar að græða alvöru peninga og orðnar „mainstream“. Unglingar (og eilífðarunglingar) flykktust á myndir á borð við Resident Evil, Zombieland og Shaun of the Dead

Þegar þetta er skrifað styttist óðum í fimmtu seríu sjónvarpsþáttanna The Walking Dead, en gera má ráð fyrir því að menn á borð við George A. Romero og Lucio Fulci hefðu hlegið sig máttlausa í kringum 1980 hefði einhver sagt þeim að zombíar ættu eftir að fá sinn eigin sjónvarpsþátt.

Líklegt þykir þó að meginstraumsvæðingin hafi náð hámarki með Zombísunum frá Kjörís. Það fíla ekki öll börn að vera vafin inn í bómull. Sum eru einfaldlega hrifnari af skrímslum, vampírum, draugum og núna; uppvakningum! En hafa ber í huga að fæstar hinna sígildu zombímynda eiga nokkuð erindi við börn. Þangað til þau ná viðeigandi aldrei geta þau þó japlað á ljúffengum og svalandi uppvakningaheilum. Krúttlegt? Það finnst okkur.

Zombís frá Kjörís