Mánudagur til mæðu?

25. ágúst 2014


Í dag er mánudagur, einn umdeildasti dagur vikunnar. Margir eiga um sárt að binda í dag, sérstaklega þeir sem tóku Menningarnótt með trompi, og vottum við þeim samúð okkar. Mánudagur hefur lengi verið óvinsæll dagur. Um hann er til dæmis skrifað í þjóðsögum Jóns Árnasonar:

„Sagt er að sá sem fæddur er á sunnudegi sé fæddur til sigurs, á mánudag til mæðu, á þriðjudag til þrifa, á miðvikudag til moldar, á fimmtudag til frama, á föstudag til fjár, á laugardag til lukku.“

Það er ekkert annað. Ef þú fæddist á mánudegi áttu ekki breik. Sorrý.

I Don't Like MondaysMánudagur hefur komið við sögu í listsköpun frá því elstu menn muna. Deginum hefur verið gerð nokkuð góð skil í hinum ýmsu dægurlögum og meðal laga sem fjalla um þennan átakanlega dag eru Blue Monday með New Order, Manic Monday með The Bangles og I Don’t Like Mondays með The Boomtown Rats.

Sagan á bak við síðastnefnda lagið er óhugguleg. Þegar hin sextán ára Brenda Ann Spencer myrti tvo og særði átta í skotárás á leikvelli í San Diego árið 1979 gaf hún þá skýringu að henni líkaði ekki við mánudaga og að ódæðið lífgaði upp á daginn.

Vandamálið liggur hins vegar hjá þeim sem þolir ekki mánudaga, ekki hjá mánudeginum sjálfum. Dagurinn markar upphaf nýrrar vinnuviku og á mánudögum eru flestir með hreint borð. Öll vikan framundan og ekkert sem segir að hún geti ekki orðið stórkostleg.

Í gamla daga var til dæmis hefð fyrir því í stórborgum að þvo þvott á mánudögum og New York og Lundúnaborg voru undirlagðar af þvotti hangandi á snúrum. Sá sem þolir ekki mánudaga getur prófað að gera hann að þvottadegi. Bara hugmynd. Svona til að byrja einhvers staðar. Ef ný og vel ilmandi föt eru ekki tilefni til að bíða ólmur eftir mánudegi ristir vandamálið dýpra.

Kannski er kominn tími á breytingar ef þú kvíðir mánudegi hverrar viku. Ef þú ert í skemmtilegri vinnu sem fellur að þínu áhugasviði ættu mánudagar nefnilega að vera uppáhaldið þitt. Við hjá Brandenburg erum til dæmis aldrei í betra stuði en á mánudögum. Nema reyndar á mánudegi eftir Menningarnótt.