Sturlaðir Stuðmenn

5. september 2014


Plötuumslagið er klassík

Guðbjörg nokkur Richter skrifaði lesendabréf til Þjóðviljans í desember árið 1976 og jós úr skálum ógleði sinnar vegna Stuðmannaplötunnar Tívolí, sem þá var nýkomin út.

„Sú plata finnst mér sú ömurlegasta sem ég hef heyrt,“ skrifaði Guðbjörg og var svo sannarlega ekkert að skafa utan af hlutunum. „Ekki er langt síðan þeir [Stuðmenn] komu fram í sjónvarpsþætti (ég vona að ég eigi aldrei eftir að sjá þá hörmung aftur) og höfðu þar í frammi alls konar skrípalæti sem ég held að fáir hafi haft gaman af.“

Það er naumast.

Guðbjörg hafði auðvitað rétt á sinni skoðun en skoðanasystkini hennar voru ekki mörg. Tívolí sló rækilega í gegn og er í dag álitin ein af merkari plötum íslenskrar poppsögu. Lög á borð við Hveitibjörn og Bíólagið hafa verið brennimerkt á heilabörk þjóðarinnar, líklega að eilífu.

Þá hafa Stuðmenn hlotið hina óformlegu heiðursnafnbót „hljómsveit allra landsmanna“, enda átti hljómsveitin eftir að framleiða sígilda slagara á færibandi næstu þrjátíu ár á eftir Tívolí. Vonandi hefur Guðbjörg Richter haft gaman af einhverjum þeirra.

En höldum okkur við Tívolíið. Stuðmenn ætla nefnilega að halda sérstaka Tívolítónleika í Hörpu annað kvöld. Reyndar tvenna tónleika. Þrenna ef við teljum ballið með. Já góðir lesendur, Stuðmenn ætla að spila meira og minna stanslaust frá kl. 19:30 til 03:00.

Er það nema von að maður óttist eilítið um Stuðmennina. Þetta er sturlun sem getur eiginlega ekki endað nema með skelfingu. Egill Ólafsson springur mögulega í tætlur á háa C-inu í lokanótu síðasta lags. Trommarinn lyppast niður eins og galtóm blaðra eftir seinasta ruslatunnuendinn. Jakob Frímann kominn að niðurlotum. Nema ekki vegna fitu (hann er í fáránlega góðu formi). Nei annars, þau hljóta að vita hvað þau eru að gera.

Nóg komið af röfli. Við hjá Brandenburg hjálpuðum Stuðmönnunum okkar við undirbúning tónleikanna. Bjuggum til flott plaköt og klístruðum þeim upp um alla veggi. Þú getur skoðað þetta betur hér.