Smurstöðin

Látið smyrja oftar

23. september 2014


Smurstöð með nýtísku sniði

Smurstöð með nýtísku sniði. Og einni sérstaklega fallegri prentvillu, Hrigbraut.

Um miðbik síðustu aldar spruttu upp svokallaðar smurstöðvar víða um land, enda þurfti að sinna viðhaldi á bílaflota landsins. Þar var hægt að láta smyrja bílana og jafnvel fá sér kaffisopa meðan beðið var. Vinnan gat verið erfið og sóðaleg, enda bílar í misgóðu ástandi þegar þeim var rennt inn á stöðvarnar. Bifvélavirkjarnir létu það þó ekki á sig fá og leystu hvert verkefni af kostgæfni og vinnusemi.

Það er sérlega gaman að sjá metnaðinn í orðasmíð hjá bifvélavirkjum á síðustu öld, en þeir tala án þess að blikna um smurkoppa, loftsíur, stýrisenda, spindilkúlur, rafgeyma, frostlög og fleira sem auðvelt hefði verið að éta beint upp úr öðrum tungumálum.

Árið 1954 var þessi Smurstöð opnuð.

Árið 1954 var þessi smekklega Smurstöð opnuð á Klöpp.

„Allt á Klöpp er klappað og klárt“

Ein kunnasta smurstöðin var á Klöpp við Skúlagötu. Hún var opnuð 20. október árið 1954, öll hin glæsilegasta. Hún var á tveimur hæðum og „búin öllum tegundum af smurningsolíum“.  Í venju fremur hreinum vinnusalnum voru bílarnir „smurðir og athugaðir“, auk þess sem stöðin státaði sig af rúmgóðu þvottasvæði og sérstakri biðstofu fyrir viðskiptavini. Ekki amalegt það.

„Shell–smurð er bifreiðin vel smurð!“

Bílasmurning er alvörumál. Eða eins og Olíufélagið Skeljungur orðar það svo kurteislega í auglýsingu frá árinu 1959: „Ef yður er annt um bifreiðina, þá látið smyrja hana reglulega. Smurstöðvar vorar eru búnar fullkomnustu tækjum til smurningar á bifreiðum og þér getið treyst því, að þar fáið þér vandaða smurningu á öllum mikilvægustu hlutum bifreiðarinnar.“

Og fólk kunni að meta góða smurningu, og lét ekki bjóða sér neitt fúsk, eins og lesa má í lesendabréfi í Alþýðublaðinu frá árinu 1948. Þar segir: „Það hlýtur að vera krafa allra heiðarlegra manna til þeirra, sem taka að sér vinnu við bílasmurning og hvað sem er, að þeir leysi svo verkið af hendi, að ekki hljótist eða geti hlotizt stórslys af og eyðilegging fyrir þúsundir króna.“ — Þúsundir króna, takið eftir því!

Nokkrir kátir „klísturapar“  ( e. grease–monkeys) við störf á Klöpp.

Nokkrir kátir „klísturapar“ ( e. grease–monkeys) við skyldustörf á Klöpp. Takið eftir samfestingunum.

„Þaulvanir menn veita yður beztu þjónustu sem völ er á“

Og nú, árið 2014 er búið að opna nýja Smurstöð í Hörpu, ekki svo ýkja langt frá Klöpp. En þar er svo sannarlega engin smurolíubræla, engir klísturapar og engin biksvört fingraför í samfestingum.

Við hjá Brandenburg erum stolt af útliti Smurstöðvarinnar sem við unnum fyrir opnun staðarins nú í haust – og ekki síður heitinu, sem er svo dásamlega viðeigandi fyrir smurbrauðsstað — þó svo hugrenningatengslin leiði mann óhjákvæmilega á ýmsar mishálar brautir.