Klúður

„Það er eitthvað inní strompnum“

23. október 2014


Flestir ráku upp stór augu þegar alíslensk furðufrétt var sögð í gær af pari sem lenti í hremmingum í bílakjallara Höfðatorgs. Fréttin var reyndar lítið meira en illskiljanlegt myndskeið, nokkurra ára gamalt, þar sem bifreið sat föst í öryggishliði kjallarans og endaði atburðarásin með því að hinum hálfklædda ökumanni bílsins tókst með ótrúlegum hætti að hvolfa henni.

Úps!

Úps!

Öll þekkjum við hlægileg myndskeið af erlendum klaufaskap og er framboðið á slíku efni svo mikið að enginn kippir sér upp við það lengur. En þegar persónur og leikendur eru Íslendingar þykir okkur meira til myndbandanna koma. Að minnsta kosti tveir vefmiðlar þýddu fréttir sínar af atvikinu yfir á ensku og kitlaði það óneitanlega þjóðerniskenndina að sjá ófarir parsins á bresku vefsíðunni LiveLeak. Í kjölfarið hafa Íslendingar færst upp um nokkur sæti á hinum alþjóðlega styrkleikalista yfir hlægilegan klunnaskap.

Ævintýrið í bílakjallaranum er hins vegar ekki fyrsta tilfellið þar sem íslenskir klaufar skemmta samlöndum sínum með því að sitja fastir á undarlegum stöðum.

Svona myndskreytti Ragnar Lár atvikið á Kaplaskjólsvegi í Dagblaðinu 1977.

Svona myndskreytti Ragnar Lár atvikið á Kaplaskjólsvegi í Dagblaðinu 1977.

Á annan í jólum árið 1977 varð ungur Reykvíkingur fyrir því óláni að falla niður um reykháf fjölbýlishúss við Kaplaskjólsveg í Reykjavík. Maðurinn, sem var um tvítugt, sat fastur í strompinum í tæpar átta klukkustundir á meðan lögregla, slökkvilið og starfsmenn Reykjavíkurborgar reyndu að finna leiðir til að koma honum út.

Þrátt fyrir súrefnisleysi gaf maðurinn sér tíma til þess að spjalla stuttlega við blaðamann Dagblaðsins, Helga Pétursson, á meðan hann var enn inni í reykháfnum (nei, þetta er ekki lygi).

„Ég er búinn að vera hérna síðan á annan í jólum,“ sagði hann og bætti því við að sér liði illa vegna loftleysis. „Eru þeir ekki að koma með loft?“

En allt fór vel að lokum og að lokum náðu björgunarmenn að losa manninn úr prísundinni. Það tókst með aðstoð höggbora og meitla og eftir að hafa fengið vatnssopa var maðurinn „furðulega hress“, eins og segir í frétt Dagblaðsins.

Af forsíðu Dagblaðsins 28. desember 1977.

Sagan endurtók sig rúmum aldarfjórðungi síðar þegar annar ungur Reykvíkingur festist í strompi á Laugaveginum í marsmánuði árið 2003. Sá hafði týnt húslyklinum sínum um miðja nótt og hugðist nota strompinn sem inngönguleið.

„Þarna sat ég pikkfastur, gargandi á hjálp,“ sagði maðurinn í samtali við Morgunblaðið en nágranni hans heyrði hrópin og gerði lögreglu viðvart. „Fyrst bölvaði ég sjálfum mér fyrir asnaskapinn og síðan fór líðanin versnandi þegar röddin fór að gefa sig eftir öll hjálparöskrin.“

Morgunblaðið sá ástæðu til að taka það fram að um „mjög óvenjulegt atvik“ væri að ræða en slökkviliðsmenn náðu manninum upp með því að bregða kaðallykkju undir handarkrika hans og toga.

„Ég var alveg eins og litli sótarinn þegar mér var bjargað upp, í rifinni skyrtu og sótsvörtum gallabuxum. Augu, nef og munnur voru full af sóti og ég var bikasvartur.“

Að lokum verður að minnast á Jón Árna, pilt um tvítugt sem festist í ruslalúgu húss á Seltjarnarnesi sumarið 1995. Sá var einnig lyklalaus og ákvað að reyna inngöngu í gegnum fyrrnefnda lúgu. Við það festist hann og á endanum leituðu vinir hans aðstoðar frá slökkviliði.

Eftir að slökkviliðsmennirnir höfðu hlegið að Jóni Árna dágóða stund hófust þeir handa við að reyna að losa hann. Fyrst var drengurinn smurður vel með sápu en þegar það dugði ekki til var læknir kallaður til, sem sprautaði Jón Árna með vöðvaslakandi. Allt kom fyrir ekki og að lokum var ekkert annað í stöðunni en að brjóta frá opinu og saga hringinn í sundur.

Jón Árni var illa haldinn af brauðfótum eftir hremmingarnar en hann kenndi vöðvaslakandi efninu um. Hann sagðist þó aldrei hafa orðið hræddur um líf sitt eða limi.

„Það eina sem ég var hræddur um var að ég kæmist ekki í brúðkaup bróður míns, sem var að gifta sig á laugardag.“

Óförum Jóns Árna voru gerð skil í Helgarpóstinum í júlí 1995.