Mmmmmm

Pæið sem aldrei varð

31. október 2014


Hrekkjavakan virðist vera komin til að vera hér á landi eftir mörg ár af tuði í þránuðum þjóðrembum sem þola fátt verr en þegar erlendir siðir og venjur nema hér land – sérstaklega ef þær koma frá Norður-Ameríku.

Afrakstur þrotlausrar útskurðarvinnu.

Afrakstur þrotlausrar útskurðarvinnu.

Við á Brandenburg ákváðum að hoppa á hrekkjavökuvagninn í ár og festum kaup á þremur graskerjum af stærri gerðinni, skárum þau út og tendruðum sprittkerti inni í þeim. Að vísu voru graskerin rándýr en hvað er skitinn tíuþúsundkall fyrir rotnandi grænmeti sem endar í tunnunni á mánudaginn.

Einnig stóð til að baka graskersböku, en þær eru bæði bragðgóðar og fljótgerðar. Tvær bökur hefðu nægt og best hefði verið að hafa þær tilbúnar núna í kaffitímanum klukkan 15. Enginn bauð sig þó fram í baksturinn og þegar yfirmaðurinn óskaði eftir sjálfboðaliðum var eins og enginn heyrði til hans. Hann er reyndar þjakaður af hálsbólgu og raddleysi en tölvupóstsendingar dugðu ekki einu sinni – enginn vildi baka.

Þá var brugðið á það neyðarúrræði að skipa bakara en núna er klukkan orðin 15 og ekkert bólar á bakstrinum. Bakarinn er ekki einu sinni í húsinu.

Það er ljóst að óhlýðni af þessu tagi verður ekki liðin. Réttast væri að greiða lata bakaranum engin laun um þessi mánaðamót. Það er kannski svolítið þung refsing en nauðsynleg að okkar mati, svona upp á fordæmisgildið. Hvað finnst ykkur?

Annars óskum við hjá Brandenburg ykkur góðrar helgi og gleðilegrar hrekkjavöku!

Það var dapurlegt um að litast í eldhúsinu nú á þriðja tímanum í dag.

Það var dapurlegt um að litast í eldhúsinu nú á þriðja tímanum í dag.