Smokie

Hver í fjandanum er þessi Alice?

6. nóvember 2014


Þó þú þekkir ekki hljómsveitina Smokie þá eru allar líkur á að foreldrar þínir geri það. Sveitin var stofnuð á Englandi árið 1974 og eftir hana liggja nokkur sígild lög. Ekkert þeirra er þó jafn þekkt og „Living Next Door to Alice“.

Living Next Door to Alice
Lagið fjallar um ástsjúkan mann sem hefur búið síðustu 24 árin við hliðina á stúlku að nafni Alice. Hann er eitthvað pínu skotinn í henni og verður voðalega leiður þegar Alice lætur sig hverfa einn góðan veðurdag.

Þrátt fyrir miklar vinsældir á árum áður hafði Smokie svo gott sem gleymst þegar tíundi áratugurinn gekk í garð. Það breyttist hins vegar árið 1995 þegar hollenska hljómsveitin Gompie sendi frá sér splunkunýja útgáfu af laginu um hana Alice.

Endurbæturnar voru reyndar ekki ýkja miklar. Lagið var í grunninn gamla Smokie-lagið, meira að segja í flutningi þeirra, nema að tvisvar í hverju viðlagi heyrðist hópur fólks hrópa: „Alice! Who the fuck is Alice?“

VeggspjaldÚtgáfa Hollendinganna naut mikilla vinsælda og allt í einu hafði almenningur áhuga á Smokie á ný. Í það minnsta hollenskur og belgískur almenningur, en lagið hljómaði einnig nokkuð reglulega á íslenskum útvarpsstöðvum.

Smokie-menn hafa eflaust tekið þessum nýju vinsældum fegins hendi, í það minnsta til að byrja með, og til marks um það má benda á að tónleikaplata þeirra frá árinu 2009 ber heitið Live in Concert 1995-1997 – Who the Fuck is Alice.

Séu tónleikaupptökur sveitarinnar skoðaðar á YouTube má greina áhrif endurgerðarinnar á nær öllum upptökum síðustu tuttugu ár eða svo. Smokie syngja viðlagið á gamla mátann og tónleikagestir hrópa hástöfum „Who the fuck is Alice?“. Hljómsveitin glottir við tönn en maður getur ímyndað sér að þeim þyki brandarinn hafa runnið sitt skeið.

Nú er þessi goðsagnakennda sveit á leið hingað til lands og ætlar hún að halda tvenna tónleika í Eldborgarsal Hörpu þann 15. mars á næsta ári. Við hjá Brandenburg höfum unnið kynningarefni fyrir tónleikana og hvetjum að sjálfsögðu alla til þess að láta sjá sig á konsertnum, hvort sem þið fremjið hollenska gólið í laginu um Alice eða ekki. Bara ekki gleyma að draga mömmu og pabba með.