Privilege Ibiza

Stærst í heimi

11. nóvember 2014


Nova var í síðustu viku valið markaðsfyrirtæki ársins af ÍMARK. Það er mikill heiður og við samgleðjumst vinum okkar þar. Í staðinn fyrir að skrifa um allt það sem við höfum brasað með Nova (þið getið séð það t.d. hér og hér) fórum við að velta fyrir okkur slagorðinu þeirra – stærsti skemmtistaður í heimi.

Zeus var algjör hlussa.

Zeus var einnig glaðasti hundur í heimi.

Út um allan heim er stærsta hitt og þetta. Að vera stór er að sjálfsögu skilgreiningaratriði en sumir hlutir eru einfaldlega þeir stærstu sinnar tegundar. Í heimi.

Stærsti næturklúbbur í heimi
Privilege Ibiza heitir næturklúbbur einn – á Ibiza, að sjálfsögðu – og geta 10.000 gestir hrist skankana þar innandyra í einu. Við öfundum ekki uppvaskarann.

Stærsti hundur í heimi
Það er reyndar ekki vitað hver stærsti hundur í heimi er. Sá sem síðast átti metið féll frá í september og arftakinn er ófundinn. En Stóri daninn Zeus var 2,2 metrar, standandi á afturfótunum. Blessuð sé minning hans. Stærsti Daninn er hins vegar hnefaleikakappinn Morten Poulsen (219 cm).

Stærsta skemmtiferðaskip í heimi
Lystiskipin MS Oasis of the Seas og MS Allure of the Seas eru þau stærstu sinnar tegundar í heiminum. Þau eru byggð í Finnlandi en heimkynni þeirra eru á Bahamaeyjum og alls geta 6.296 farþegar verið um borð í hvoru skipi fyrir sig. Á teikniborðinu voru þau jafnstór en það síðarnefnda mældist fimm cm lengra (361,6 m) eftir að þau voru byggð. Bent hefur verið á að mælingarnar hafi farið fram við mismunandi hitastig og af því stafi munurinn. Alltaf sama öfundin hjá Oasis-mönnum.

Hambó!

Hambó!

Stærsti hamborgari í heimi
Mannfólk hatar ekki hamborgara – það vita allir. Sá stærsti í heimi vó 913,54 kg og var búinn til af matsveinum Black Bear-spilavítisins í Minnesota-ríki Bandaríkjanna (auðvitað) árið 2012. Á þennan sveitta börger fóru 24 kíló af tómötum, 23 kíló af káli, 27 af lauk, tæp 9 af súrsuðum gúrkum, 18 kíló af osti og rúm 7 kíló af beikoni. Ekki var í boði að stækka frönskuskammtinn.

Stærstu brjóst í heimi
Í þessum flokki fá sílikonbrjóst ekki að vera með. Hin bandaríska Annie Hawkins-Turner er ekki með sílikon og er stolt af barmi sínum. Hún notar brjóstahaldara af stærðinni 52I og við höfum ekki hugmynd um hvað það þýðir. Látum myndirnar frekar tala sínu máli.

Stærsti núggatklumpur í heimi
Nammigrísirnir Jerome Guigon og Bernard Morin bjuggu árið 2005 til stærsta núggatklump allra tíma (auðvitað). Hann vó 1.300 kíló og bragðaðist guðdómlega – að öllum líkindum. Í klumpinn fóru 400 kíló af möndlum, 26 kíló af pistasíuhnetum, 160 kíló af hunangi og alveg ógeðslega mikið af eggjahvítu. Sjálfsvirðing þeirra sem átu klumpinn var hins vegar undir mælanlegum mörkum.

Þetta er ekki Photoshop.

Þetta er ekki Photoshop.

Stærsta nef í heimi
Tyrkinn Mehmet Özyürek fær sjálfan Dustin Hoffman til að skammast sín fyrir nefsmæð. Nef Özyüreks er 8,8 cm að lengd og jafnvel lengra þegar hann lýgur. Mælingin er samt engin lygi – nefið er svona stórt! Hér má sjá Özyürek ásamt Francisco Domingo Joaquim, eiganda stærsta munns í heimi.

Stærsta sundlaug í heimi
Sundlaugin á ferðamannastaðnum San Alfonso Del Mar í Chile er sú stærsta í heimi. Að minnsta kosti í flokki útisundlauga. Hún er tæpur kílómetri að lengd og djúpa laugin er 35 metra djúp, sem gerir hana einnig að þeirri dýpstu í heiminum. Það þarf ekki nema 250 milljón lítra af vatni til að fylla laugina og ekki nema eitt smábarn að kúka í hana til að setja Chile á hausinn.

Setjum punktinn hér. Hirðbloggari Brandenburgar þarf að fara aftur að vinna.

Sundnúggat