Nýsmekkleysi

Agressíft nýsmekkleysi

20. nóvember 2014


Screen Shot 2014-11-13 at 21.19.33Þær eru háværar. Þær eru einfaldar. Þær eru skorinorðar. Þær koma sér beint að efninu, án málalenginga. Ekkert óþarfa prjál. Ekkert flúr. Engin þyrluskot. Enginn leikstjóri. Enginn framleiðsluvirðisauki. Bara herská og miskunnarlaus auglýsingamennska.

Þetta eru auglýsingar sem kenna má við „agressíft nýsmekkleysi“.

Hver kannast ekki við manninn sem öskrar „HUMAR! HUMAR!“ í útvarpinu þegar maður situr berskjaldaður í bílnum að afloknum vinnudegi? Eða beljakann sem æpir „TEXASBORGARAR!“ þegar síst varir?

HÆ! Gettu hver ég er…

Hvað gengur þessum mönnum eiginlega til, ætlast þeir virkilega til að maður bíti á agnið? Fyllist löngun í humra og flenniborgara, bara vegna þess að einhver auglýsingapési æpir það upp í eyrað á saklausu fólki? Það er ekki gott að segja. En eitt er víst. Þær fara ekki fram hjá neinum. Þær sitja greyptar í heilabörkinn, sveima um undirmeðvitundina og breyta sætustu draumum í martraðir án þess að maður geti nokkuð að gert.

Hvar skyldi þetta hafa byrjað? Jú. Ætla má að margir nýsmekkleysistar séu í dag undir sterkum áhrifum frá Ásgeiri í Tölvulistanum, sem hikaði ekki við að kynna sig með kveðjunni „HÆ! ÉG ER ÁSGEIR Í TÖLVULISTANUM“. Margir dáðust að mínímalískri nálgun þessa einlæga tölvusala. Jafnvel þó að persónutöfrum væri að einhverju leyti ábótavant og öll umgjörð hin ósmartasta – þá var þarna sleginn nýr tónn í auglýsingamennsku. Nýsmekkleysið var komið til að vera.

Íslands eina von

Screen Shot 2014-11-13 at 21.14.51En nýsmekkleysið einskorðast ekki við hróp og köll hins frumstæða auglýsingamanns. Ósvífnir markaðssnápar hafa að sjálfsögðu útvíkkað þennan dökka kima auglýsingamennskunnar og heimfært upp á hin annars saklausu auglýsingastef.

Þó ótrúlegt megi virðast var það hinn annars smekkvísi músíkant Valgeir Guðjónsson sem hleypti frá þeirri loku taumlausrar agressjónar í á sínum tíma með því að baula út úr sér hinu naífa en áhrifamikla stefi „GEYMSLUR!“. Síðan þá hafa ýmsir spreytt sig á þessum stíl — sem sennilega hefur risið hæst (eða sokkið lægst, eftir því hvernig á málið er litið) í hinu gróteska en áhrifamikla „SPORTSDIRECT DOTT KOMM ÍSLANDS EINA VON“.

Prentmiðlar hafa líka mátt þola sitt. Allt frá því að Bónus fór að sýna þjóðinni nákvæmlega hvernig ódýrar unnar kjötvörur (einkum kjötfars) líta út á skærgulum grunni hefur nýsmekkleysinu vaxið fiskur um hrygg — og sá fiskur er vitanlega „ÝSA Í RASPI!“

Í dag má svo sjá agressjónina grassera og ná nýjum óþekktum hæðum í skóauglýsingum Mörtu Jonsson, þar sem öllu ægir saman — pelsum, holdi, geislavirkni, norðurljósum og skófatnaði. Jafn dásamlega heillandi og þær eru hræðilegar.

sohosolbleikÞú verður ekki brúnn á að standa þarna fíflið þitt!!

Og það er ekki allt. Aldeilis ekki.

Getur einhver gleymt herferð brúnkubekkjamusterisins Sóhósólar seint á síðasta áratug þar sem auglýstar voru „!! ÞROSKAHEFTAR PERUR !!“ og „SHITLOAD AF KREMUM“? Þar braust fram áratuga uppsöfnuð markaðsleg minnimáttarkend Grensásvegar — með sannkallaðri sprengingu.

Íslenskt auglýsingaumhverfi varð ekki samt á eftir og baðstofan bíræfna skildi eftir sig varanlegra far á sálum furðu lostinna markaðsmanna en nokkru sinni á viðkvæmri húð íslenskra ungmenna.

Legsteinar og fylgihlutir

Stundum þykir manni nýsmekkleysið hins vegar orðið óþarflega áleitið. Það er helst þegar tilboðsdagar á legsteinum hefjast og misákafir steinsmiðir keppast um að falbjóða okkur grafargrjót sitt með misgirnilegum gylliboðum.

„Lokadagar“ fá einhvern veginn alveg nýja og kaldranalega merkingu þegar þeim fylgir mynd af legsteini. Og hvaða merkingu á maður að þora að leggja í slagorðið „Allt innifalið“? Kemst maður yfirhöfuð heill á húfi frá slíkum viðskiptum?

Hitapottar — Normex

Það er erfitt að segja í hvaða áttir íslenska nýsmekkleysið mun þróast á næstu árum. Tilbrigði við það má finna í ótal miðlum. Það þrífst í skjá- og smáauglýsingum, samlesnum, í hvers kyns deilimagni á samfélagsmiðlum, í bíóum og í sjónvarpi. Það er allt um kring, upp um alla veggi og inni í öllum glufum — og veitir öðrum auglýsendum aðhald og verðuga samkeppni.

Gleymum því ekki að nýsmekkleysið virkar. Það er ódýrt, áhrifaríkt og eftirminnilegt. Og það finnur sér ætíð farveg. Það er okkar hinna að berjast gegn því, okkar sem trúum því að meira þurfi til í markaðsmennsku en skræka rödd, skæra liti og flenniletur.

Það er okkar að fordæma það og hæða — og dást að því úr fjarska.

 

Screen Shot 2014-11-19 at 23.28.37