Jól

Það skyldi þó aldrei vera jólahjól?

4. desember 2014


Jólin eru á næsta leiti. Sorrý, þið sem fílið ekki jólin.

Við hjá Brandenburg fílum hins vegar jólin — og það bara nokkuð vel. Jólalögin eru farin að óma í húsakynnum okkar við Lækjartorg, piparkökur sjást æ oftar í litlum skálum víða í rýminu og menn og konur laumast í maltölið þegar enginn sér til.

Jólalögin geta þó valdið rifrildum á vinnustaðnum enda getur lag sem einum finnst stórfenglegt verið sem eitur í beinum annarra. Og þess vegna var ekkert vit í öðru en að halda smá kosningu.

Starfsfólk var beðið að skrifa stuttan lista yfir sín uppáhaldsjólalög, og annan enn styttri yfir jólalög sem soga úr manni lífsviljann. Fólk svaraði að sjálfsögðu bæði seint og illa en hér fyrir neðan má sjá niðurstöður kosninganna. Fyrst bestu jólalögin — svo hryllinginn.


Tíu bestu

10. Wonderful Christmastime — Paul McCartney
Við þorum ekki að ímynda okkur á hve miklu kókaíni McCartney var þegar hann samdi og hljóðritaði þetta furðuverk. Lagið er umdeilt, líka innandyra hjá okkur, en það komst engu að síður á listann.


9. Er líða fer að jólum — Raggi Bjarna
„Drungi í desember…“ – Er hægt að byrja lag á svalari línu en þetta? Og gæti einhver gert það annar en Raggi Bjarna? Sennilega ekki. Kannski Tom Waits. En hann hefði aldrei leikið í svona hressu myndbandi.


8. Let It Snow! Let It Snow! Let It Snow! — Dean Martin
Það hafa ansi margir þjösnast á þessu indæla lagi í gegnum tíðina en það var útgáfa Dean Martin sem vann hug og hjörtu Brandenburgara. Því færri orð um íslensku útgáfuna, Meiri snjó, því betra.


7. Komdu til mín fyrsta kvöldið jóla – Þrjú á palli
Við fyrstu hlustun er þetta lag, sem kom út árið 1971, pirrandi og hundleiðinlegt. En við ítrekaða hlustun gerist eitthvað. Eitthvað óútskýranlegt. Hvað er líka jólalegra en sjö sáð sæði?


6. Fairytale of New York — The Pogues & Kirsty McColl
Þetta prýðisgóða lag var flestum gleymt þar til fyrir nokkrum árum þegar einhver dustaði af því rykið og boðaði fagnaðarerindið. Lagið er risastórt og rosalega írskt en fyrst og fremst alveg ómótstæðilega jólalegt. Jafnvel þó að orðið „faggi“ komi við sögu í því.


5. Merry Xmas Everybody — Slade
Þrátt fyrir að Slade sé með öllu óverjandi og viðurstyggileg hljómsveit þykir flestum ansi vænt um jólalagið þeirra, Merry Xmas Everybody. Viðlagið kemur stækustu fýlubombum í dillandi jólastuð og sjálfur Eyjólfur Kristjánsson náði ekki einu sinni að toppa upprunalegu útgáfuna, en reyndi þó.


4. Ég hlakka svo til — Svala Björgvins
Það er erfitt að lýsa því hvað greinir þetta ástsæla lag frá öðrum íslenskum jólalögum frá 9. áratugnum en það hefur eitthvað. Einhvern X-faktor.

Allir geta tengt við textann enda fáir sem muna ekki eftir hinu óbærilegu bið eftir jólunum í barnæsku. Svo skemmir ekki fyrir að Svala var orðinn mjög frambærileg söngkona þrátt fyrir ungan aldur.

Rúsínan í pylsuendanum er svo pabbi gamli í bakröddunum en rödd hans er það auðþekkjanleg að það fer aldrei á milli mála að þarna er á ferðinni sjálfur Stóri Bó.


3. Christmas in Hollis — Run DMC
Rapp, jólarapp!

Það er ekki víst að þetta lag hefði náð að lifa jafn lengi og það hefur gert ef einkabílstjórinn Argyle hefði ekki sett það á fóninn í kvikmyndinni Die Hard, okkar manni John McClane til mikillar armæðu. Die Hard-áhorf hefur orðið að jólahefð hjá mörgum og Christmas in Hollis nýtur góðs af.

Lagið, sem er með rappsveitinni Run-D.M.C., kom út árið 1987 og fjallar um Hollis–hverfið í Queens og er myndbandið við lagið ansi skrautlegt.

Það er ekki víst að amma gamla komist í jólaskap, frekar en John McClane, þegar þú spilar lagið en starfsmenn Brandenburgar virðast halda upp á það. Enda er það æði!


2. The Christmas Song — Nat King Cole
Allir þekkja þetta fallega lag en ekkert svo margir vita hvað það heitir. Á íslensku heitir það Þorláksmessukvöld og er í flutningi Brunaliðsins en á frummálinu heitir það einfaldlega The Christmas Song.

Lagið var samið árið 1944 af þeim Bob Wells og Mel Tormé. Nat King Cole hljóðritaði það fyrst árið 1946 og svo nokkrum sinnum til viðbótar en útgáfa hans frá 1961 er sú sem oftast er spiluð. Erum við kannski að missa okkur í ártalaleiðindum?

Listinn yfir þá sem hljóðritað hafa lagið í gegnum tíðina er lengri en internetið sjálft og okkur dettur ekki í hug að hlusta á neitt af þessu. Útgáfa Brunaliðsins fær þó hrós fyrir tímamótatrommuleik. Veit einhver hvaða grimmi grúvhundur trommaði þetta?


1. White Christmas — Bing Crosby
Það ætti ekki að koma neinum á óvart að þetta sígilda og gullfallega lag frá árinu 1941 sé í efsta sæti listans. Jafnvel framsæknustu auglýsingahipsterar standast ekki klassík af þessu kalíberi. Reyndar var lagið ekki tekið upp í hljóðveri fyrr en ári síðar en sú útgáfa sem flestir þekkja er frá árinu 1947.

Lagið, sem er samið af Irving Berlin, er söluhæsta smáskífulag allra tíma samkvæmt Heimsmetabók Guinness en talið er að 50 milljón seld eintök sé nokkuð nærri lagi. Nákvæm tala liggur hins vegar ekki fyrir þar sem fólk var minna að stressa sig á að halda utan um sölutölur í þá daga.

En þó að White Christmas sé þekktasta lagið sem Bing Crosby söng eru fjölmörg önnur í hans flutningi sem ættu að geta komið þér nokkuð örugglega í jólaskap. Svo lengi sem þú sleppir því að lesa um Crosby á Wikipedia. Hann var nefnilega bæði fantur og fúlmenni. En það er önnur saga.

Þar hafið þið það. Tíu bestu jólalög allra tíma að mati starfsmanna Brandenburgar. Eigum við að vaða í þau verstu?

Nei annars, bíðum aðeins með það. Hér var að berast glæný frétt. Svifaseinn silakeppur gaf sig á tal við bloggritara og baðst afsökunar á því að hafa ekki skilað lista. Vildi þó ólmur koma sínu að. Sé listi hans tekinn inn í reikninginn hækkar eitt lagið um eitt stig og ætti samkvæmt því að vera í tíunda sæti yfir bestu lögin.

Það er hins vegar ekki sjens á að bloggritari nenni að hrófla við listanum eins og hann er þannig að höfum það bara hér fyrir neðan. Köllum það „ítarefni“.


AUKALAG: All I Want For Christmas Is You — Mariah Carey
Já ef lífið væri sanngjarnt ætti þetta ljómandi fína lag að vera í tíunda sæti listans og Paul McCartney að detta út. En svona er þetta stundum.


Fimm verstu

Og þá vindum við okkur í hörmungarnar.

Við viljum vara lesendur við því að sum laganna á listanum gætu verið í uppáhaldi hjá einhverjum. Einhver þeirra fengu meira að segja atkvæði á hinum listanum en komust ekki inn. Ókey, það var reyndar bara eitt lag. Byrjum á því.

5. Ef ég nenni — Helgi Björns

Já, eins og með Pogues-lagið hér fyrir ofan þá féll þetta lag í hálfgerða gleymsku á einhverjum tímapunkti. Jú jú, heyrðist alveg annað slagið, kannski nokkrum sinnum fyrir hver jól, en svo reis það upp úr öskustónni og þykir núna með þeim bestu í ítalsk–íslenskri jóladægurlagasögu.

Núna virðist það hins vegar vera að detta úr tísku. Ætli það megi ekki kenna hinum alræmda Stairway to Heaven-–syndrómi um það. Það er búið að rúlla þessu svo oft að tilhugsunin um að hlusta á það er verri en kvíðinn vegna seinni hangikjötsmáltíðarinnar á jóladag.


4. Nei, nei ekki um jólin — HLH flokkurinn
Fjallar þetta lag um heimilisofbeldi eða sjálfsvígshugsanir? Við hjá Brandenburg segjum nei nei við þessu lagi — og sérstaklega um jólin.


3. Jólaleg jól — Anna Mjöll og mamma hennar
Þetta lag er svo skelfilegt að svo virðist sem búið sé að eyða öllum ummerkjum um tilvist þess á internetinu. Það er ekki á YouTube, ekki á Tónlist.is, ekki á Spotify og það gúgglast varla.

Það sem við vitum: Anna Mjöll syngur það, pabbi hennar samdi það og lagið er hreinræktaður hryllingur.
Það sem við höldum: Að Svanhildur, mamma Önnu, hafi sungið það með henni. Já og að lagið sé það sem þú hlustar á í lyftunni á leið niður til helvítis.

Ekkert myndband – bara mynd af kölska.

Satan


2. Skrámur skrifar jólasveininum — Skrámur
Það er ótrúlegt að þetta lag sé bara 4:12 að lengd — það virkar lengra en þríleikurinn um Guðföðurinn. Og ekki misskilja, við myndum aldrei dissa Ladda, en þetta „lag“ átti að fara í lakið.


1. Jólahjól — Sniglabandið
Þetta var engin keppni. Sniglabandið RÚSTAÐI keppninni um versta jólalagið. Já, blessað Jólahjólið má muna sinn fífil fegurri. Eins og þetta þótti skemmtilegt lag á sínum tíma.

Reyndar kann bloggritari ágætlega við lagið og íhugaði hann að hagræða úrslitunum. En heiðarleiki borgar sig og Jólahjól er öruggur sigurvegari.

Versta jólalag allra tíma, að mati vitfirrtasta samstarfsfólks allra tíma.

Hins vegar var gripið í taumana þegar einn reyndi að lauma Léttur um jólin með Ríó tríó á verstulagalistann. Það jaðrar auðvitað við landráð og hefur starfsmaðurinn verið sendur í launalaust leyfi.

Annars bara gleðileg jól!

Lögin sem koma við sögu í þessari bloggfærslu má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.