Jólagjafir

Tilvalin jólagjöf!

11. desember 2014


Ert þú að leita að hinni tilvöldu jólagjöf fyrir makann, foreldrana eða börnin? Hvað getur þú gefið þeim sem eiga allt? Og af hverju ertu alltaf að spá í þessu eftir kvöldmat á Þorláksmessu?

Til allrar hamingju hafa verslunareigendur oft vitið fyrir okkur neytendunum og segja okkur hvað er tilvalin jólagjöf. Hér má sjá brot af þeim gjöfum sem þótt hafa tilvaldar í gegnum tíðina.

Kex1. Kex

Ekki einu sinni nískasta vinnuveitanda heims myndi láta sér detta það til hugar að gefa starfsfólki sínu kex í jólagjöf. Fjölskyldumeðlimur sem myndi gæfi slíkt væri því líklega að segja þér með nokkuð beinum hætti að honum þætti þú ómerkilegur pappír sem ætti varla skilið að fá jólagjöf.

Kexverksmiðjan Frón var þó á því að kex væri tilvalin jólagjöf fyrir jólin 1938 — betur þekkt sem jólin sem sundraði fjölskyldum.

Lazer Tag2. Lazer Tag

Munið þið eftir því þegar Laser Tag-leikurinn vinsæli ruddist fram á sjónarsviðið undir lok 10. áratugarins? Allir og ömmur þeirra opnuðu Laser Tag-sali hér og þar, meðal annars í Kringlunni, en svo dó æðið korteri seinna.

Fyrirbærið var hins vegar síður en svo nýtt af nálinni þegar æðið brast á. Fyrir jólin 1987 var Lazer Tag auglýst sem „geislaleikur framtíðarinnar“ og jólagjöfin í ár — það árið.

Ekki liggur fyrir hversu vinsælt Lazer Tag varð, en gera má ráð fyrir því að þetta hræbillega framtíðardót rykfalli nú á háaloftum þeirra heimila sem höfðu trú á auglýsingunni.

Pampers3. Bleiur

Að vera ekki pissublautur telst í dag til sjálfsagðra mannréttinda en jólin 1979 var það greinilega algjör lúxus. Fram að því virðast börnin hafa mátt marinerast í eigin hlandi og saur yfir jólin.

En það léttir vissulega jólaannirnar að þurfa ekki að þola ræpuangan af smábörnum innan um lyktina af reyktu kjöti og piparkökum. Og jólagjöfin leyst í leiðinni. Algjört win-win. Jólin 1979 urðu því gleðilegri en önnur jól.

Heilagur Frans4. Heilagur Frans

Það voru ekki bara börnin sem fengu gleðileg jól árið 1979. Ein glæsilegasta jólagjöfin sama ár var ævisaga heilags Frans frá Assisi, en hann er talinn „hafa komist næst því að feta í fótspor Krists“.

Bókin var sannkallaður hvalreki fyrir aðdáendur heilags Frans og var prýdd yfir 70 heilsíðumyndum í lit.

Bongóló5. Bongóló

Jafnvægisleikurinn Bongóló þótti tilvalin jólagjöf fyrir jólin 1960 en um var að ræða „góða skemmtun fyrir alla fjölskylduna og gestina“.

Leikurinn var jafnt fyrir yngri sem eldri en í auglýsingunni hefur eldri kynslóðin notað líkamlega og vitsmunalega yfirburði sína gegn þeim yngri og hamstrað leikfangið.

Við vitum ekki alveg út á hvað leikurinn gengur en af myndunum að dæma er um eins konar hjólabretti að ræða með hjólasetti í miðjunni. Leikmenn standa svo á brettinu og reyna að halda jafnvægi — eða eitthvað.