Völvan

Völvuspá Brandenburgar 2015

30. desember 2014


Senn gengur nýtt ár í garð og margir spyrja sig hvað það mun bera í skauti sér. Völva Brandenburgar rýndi í kristalskúlu sína og sá margt áhugavert í aðsigi á árinu 2015 — bæði í heimi auglýsinganna og samfélaginu öllu.

„2014 var í sjálfu sér ekki frábrugðið öðrum árum í bransanum,“ segir völvan og sýpur á ilmandi tebolla. Hún er einbeitt og alvörugefin en sendir frá sér jákvæða orku. „2015 verður viðburðaríkara. Ég sé það strax.“

Völvan sér fjölmargar útsölur strax í byrjun árs og telur hún að mikið verði að gera hjá auglýsingafólki vegna þeirra. „Verðið mun hríðlækka og víða verður hægt að gera mjög góð kaup.“ Hún segist sjá einn eða tvo vörutalningardaga á stöku stað eftir áramót en eftir það ætti hasarinn að byrja.

Bústni mávurinnÞá segist völvan sjá opnun nýs skyndibitastaðar á höfuðborgarsvæðinu og telur hún að Brandenburg muni sjá um að nefna staðinn, hanna lógó og annað auglýsingaefni.

„Staðurinn verður góður og útlitið glæsilegt en ég sé vandræði með nafngiftina. Bragi [Valdimar Skúlason, starfsmaður Brandenburgar] hefur lengi gengið með nafnið í maganum og oft stungið upp á því áður. Í þetta sinn verður það samþykkt. Ég sé ekki betur en að staðurinn muni heita Bústni mávurinn.“

Völvan segir að staðurinn verði skammlífur, að miklu leyti vegna nafnsins. „Hann endist ekki út árið, þvi miður. Og það verða mikil vonbrigði fyrir Braga, sem mun líta á þetta sem persónulegan ósigur.“

Snjallsímaappið Snapchat kemur mikið við sögu á árinu að sögn völvunnar og munu fleiri fyrirtæki fara að nota appið til þess að ná til viðskiptavina. „En undir lok ársins verða fyrirtækin búin að nota nærri alla sniðuga Íslendinga á „markaðsvænum aldri“ í að sjá um Snapchattið. Í kjölfarið fara markaðsmenn að hugsa út fyrir kassann.“

Geirmundur ValtýssonVölvan segir að stórt fyrirtæki geri sig að athlægi um haustið þegar tónlistarmaðurinn Geirmundur Valtýsson er fenginn til að sjá um Snappið. „Það verður síðasti naglinn í kistuna. En eitthvað annað tekur við.“

Talandi um tónlistarmenn. Völvan segir að akústískt indíkrúttpopp sé á útleið úr auglýsingabransanum. „Þau munu smám saman hætta að heyrast, þessi lágstemmdu, dúllulegu lög. Í staðinn kemur eitthvað alveg nýtt.“ Völvan segir að norskur svartmálmur verði áberandi í íslenskum auglýsingum á árinu. „Það hljómar kannski ótrúlega en þetta verður algjör viðsnúningur.“

Þetta verða ekki einu stóru breytingarnar á árinu að sögn völvunnar. Sviptingar í bransanum eru yfirvofandi, líkt og við fengum nasaþefinn af á þessu ári. „Ég sé stóra auglýsingastofu sameinast blikksmiðju á Blönduósi,“ segir völvan en hún telur þó að lítið sem ekkert verði um uppsagnir. „Sameiningin mun ganga eins og í sögu og fyrirtækið mun skila miklum hagnaði í árslok.“

Völvan verður alvarleg á svip og fær sér meira te. Hún segir að harka innan bransans muni aukast til muna á árinu. Gamall og niðurbældur pirringur muni brjótast út með blóðugum hætti. „Ósáttir auglýsingamenn munu grípa til vopna,“ segir völvan og boðar stofnun nýrra samtaka — Aftökusveitar íslenskra auglýsingastofa (AsíA).

AsíA„Þeir eru grimmir og ég sé hálfgert þrumuský yfir þeim. Lélegum hönnuðum verður stillt upp við vegg og þeir skotnir. Bransinn mun skiptast í tvær fylkingar, með og á móti, og friðarumleitanir munu litlu skila. Þetta verða hamfarir.“

Völvan bætir því hins vegar við að stuðningur við sveitina muni snarminnka eftir að nýútskrifaður hönnuður úr LHÍ verður tekinn af lífi fyrir ofnotkun Papyrus-fontsins. „Það verður kornið sem fyllir mælinn og samtökin munu leysast upp í kjölfarið.“

Enn frekara ofbeldi mun setja mark sitt á árið 2015. Upp úr sýður á Lúðrinum — íslensku auglýsingaverðlaununum á fyrri hluta ársins þegar í ljós kemur að árshátíð Facebook-hópsins Markaðsnördar er haldin í sama húsi á sama tíma.

„Hörundssárir auglýsingamenn og konur munu fá sér aðeins of mikið neðan í því og út brjótast slagsmál í anddyri hússins þar sem gestir úr báðum veislum standa og reykja. Þetta verður eins og Austurvöllur 1949 — óeirðarlögregla með norskar hríðskotabyssur mætir á svæðið og mannfall verður gríðarlegt. Innandyra kemur Maggi á Texasborgurum svo öllum á óvart þegar hann fer heim með Lúður fyrir bestu auglýsingaherferðina.“

Þar hafið þið það. Völvan hefur talað og við hér hjá Brandenburg sendum ykkur öllum bestu áramótakveðjur. Takk fyrir 2014!