blogg

Músíkmetingur

27. janúar 2015


Það er mikil og góð tónlistarmenning á Brandenburg. Meðal starfsmanna eru nokkrir virkir tónlistarmenn og nokkrir afdankaðir en hver einasti starfsmaður virðist hafa tónlistarsmekk. Í það minnsta hafa þeir allir skoðun á því sem hljómar í græjunum hverju sinni..

Það er erfitt að gera öllum til geðs. Þegar Stone Roses fer á fóninn kvartar dauðarokkarinn. Þegar Ramones fer á fóninn kvartar djassgeggjarinn. Þegar Creed fer á fóninn kvarta allir (þetta er engin lygi, Creed hefur í alvörunni farið á fóninn).

CreedEinstaka tónlistarmenn virðast höfða til allra á stofunni og fara því oftar undir nálina en aðrir. Fyrir vikið eru allir komnir með upp í kok af Blondie og Beck. Þá virtust allir kunna ágætlega við jólalögin þó að ekki hafi náðst samkomulag um það hvenær ætti að byrja að spila þau. Tveir mestu jólabangsarnir þjófstörtuðu í nóvember og gerðu allt brjálað.

Þegar framkvæmdastjórinn vill hleypa lífi í mannskapinn og auka framleiðni spilar hann stundum poppaða næntís danstónlist. „Mér líður eins og ég sé fjórtán ára að máta gallabuxur í Deres,“ hreytti einn hönnuðurinn út úr sér einu sinni. Flestir láta sig samt hafa það af ótta við brottrekstur. Setja bara upp heyrnartólin.

Skoði maður tónlistarsmekk starfsmanna með tilliti til hlutverks þeirra hjá fyrirtækinu kemur margt áhugavert í ljós. Hönnuðir eru hrifnastir af jaðartónlist kennda við hipstera. Indírokki og gáfumannapoppi sem er ósjaldan í aðalhlutverki á Iceland Airwaves–hátíðinni. Þeir pæla í árslistum og tékka á öllum nýjustu plötunum. Þeir kunna nöfnin á öllum tónlistarmönnunum sem hinir hafa aldrei heyrt minnst á. Með puttann kyrfilega fastan á púlsinum og láta alla vita af því.

PavarottiTextasmiðirnir og motion–deildin eru í öðrum pakka. Þeir eru sérstakir áhugamenn um thrash metal — undirflokk þungarokks sem náði kreatífum hápunkti sínum á 9. áratugnum. Við erum að tala um bólótta, síðhærða stráka í þröngum gallabuxum að syngja um pólitík og kjarnorkustyrjaldir. Pabbarokk dagsins í dag. Stundum hittast þessir starfsmenn hálftíma fyrir vinnu og hlusta saman á sveitir á borð við Megadeth, Kreator og Slayer. Krúttlegt.

Tenglarnir eru mest gamaldags. Þeir nenna ekkert að pæla í straumum og stefnum. Skilja ekkert hvernig hinir nenna að pæla í nýrri músík. Þeir vita að dægurtónlistin náði hápunkti sínum með Elvis Presley og Smokie. Einn þeirra reyndi meira að segja að troða inn fullt af Pavarotti þegar við bjuggum til jólalagatopplistann okkar.

Þrátt fyrir að vera sjaldan sammála um tónlist ákváðum við samt að stofna sameiginlegan reikning á Spotify. Búa til lagalista og leika okkur. Aðallega bara fyrir okkur hér innanhúss. En auðvitað mega allir njóta. Kíktu á okkur á Spotify og fylgstu með.

Eftirfarandi lagalisti var búinn til þannig að hirðbloggarinn gekk manna og kvenna á milli og bað hvern og einn um að nefna fyrsta lagið sem honum dytti í hug. Smá pressa auðvitað, en þetta er afraksturinn.