Lukku Láki og Léttfeti

Sál í stál

4. mars 2015


Flestir telja sig eiga sálufélaga. Hann getur verið maki, systkini, foreldri, barn, gæludýr eða gamall vinur. Sumir líta jafnvel á frægt fólk sem sálufélaga. Einhverja manneskju úti í heimi sem segir eða gerir hluti sem maður tengir svo mikið við að manni finnst maður þekkja viðkomandi. Bloggskrifari lumar til dæmis á stuttum lista yfir fræga einstaklinga sem hann telur að gætu verið sálufélagar sínir.

McCartney og LennonÍslenska orðabókin skilgreinir sálufélaga sem „persónu sem er andlega skyld annarri“. Það er freistandi að gera ráð fyrir því að öll frægu tvíeykin séu sálufélagar en svo þarf ekki endilega að vera.

John Lennon og Paul McCartney voru til dæmis tæplega sálufélagar þrátt fyrir að hafa í sameiningu skapað svo magnaða list að áhrifa hennar gætir enn, um hálfri öld síðar. Þeir höfðu ólíka skapgerð og rifust eins og hundur og köttur.

Stundum er það nefnilega þannig að tveir mjög ólíkir einstaklingar mynda saman einhverja undarlega heild. Svo við höldum okkur við þá félaga, Lennon og McCartney, þá bætti töffaraskapur Lennon upp fyrir væmni McCartney, og melódíupælingar og flóknar útsetningar McCartney fyrir einfaldan, pönkaðan stíl Lennon. Fullkomin blanda – já, en sálufélagar?

TvíhöfðiNei, við þurfum líklega að leita betur.

Betra dæmi eru þeir Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr. Nördarnir tveir úr Kópavogi sem kenndir eru við Tvíhöfða. Þó að persónuleikar þeirra séu ólíkir þá hafa þeir nákvæmlega sömu nálgun þegar kemur að listsköpun. Þeir eru góðir vinir og virðast njóta þess að vinna hvor með öðrum.

Tvíhöfði er mögulega fallegasta vinátta Íslands og öll höfum við notið góðs af henni. Það er samt erfitt að fullyrða að tveir menn sem maður þekkir ekki neitt séu sálufélagar. Kannski hnakkrífast þeir og þola ekki hvorn annan en leyna því fyrir alþjóð.

Þess vegna er auðveldast að fara í persónur í kvikmyndum og bókum. Myndasögukúrekinn Lukku Láki og Léttfeti, hvíti hesturinn með gula faxið, eru til dæmis sálufélagar. Annar þeirra getur að vísu ekki talað en það er kannski bara betra. Þá rífur hann ekki kjaft.

Annað sambærilegt tvíeyki sem ekki er til í alvörunni eru þeir félagar Han Solo og Chewbacca (Loðinn eða Tóbakstugga – íslenskum þýðendum ber ekki saman um þetta) úr Stjörnustríðskvikmyndunum. Þessir gömlu vinir hafa flogið saman um heima og geima og lesa hugsanir hvors annars. Chewbacca, líkt og Léttfeti, er ófær um að tjá sig með orðum en sýnir væntumþykju sína í garð Han Solo með búkhljóðum, látbragði og faðmlögum.

Nú er búið að nefna tvö dæmi um sálufélaga sem eru ekki til í alvörunni. Fleiri slík dæmi eru C-3PO og R2D2, einnig úr Star Wars, Tom Hanks og blakboltinn Wilson í Cast Away og Lenny og Carl úr The Simpsons. Getur verið að sálufélagar séu aðeins til í skáldskap? Erum við öll ef til vill of ólík til þess að það séu sálufélagar þarna úti fyrir okkur?

En af hverju þetta mas um sálufélaga?

Jú, auðvitað tengist þetta verkefni hjá okkur. Í vetur unnum við að auglýsingum fyrir Kia Soul, kraftmikinn bíl sem er fáanlegur bæði í rafmagns– og dísilútgáfu en við lögðum sérstaka áherslu á rafmagnsútgáfuna. Yfirskriftin er „Magnaður sálufélagi“ og á það ef til vill sérstaklega vel við í ljósi þess að sálufélagar geta yfirleitt ekki talað. Að minnsta kosti ekki báðir. Mjög hentugt fyrirkomulag í öllum alvöru sálufélagasamböndum. Annars færi allt bara í rifrildi og rugl.

Loðinn og Han Solo