VII

Handahófskennt þvaður um Stjörnustríð

17. apríl 2015


„Jeremías minn,“ hugsuðu margir aðdáendur Stjörnustríðs í gær þegar fyrsta almennilega stiklan úr Star Wars: Episode VII – The Force Awakens var birt á netinu í gær. Myndin verður frumsýnd næstu jól og þegar þetta er skrifað eru nákvæmlega 244 dagar, 9 klukkutímar, 3 mínútur og 28 sekúndur þangað til.

SvarthöfðiStiklan lofar góðu, við Brandenburgarar treystum okkur alveg til að fullyrða það, en um leið erum við smeyk. Fyrstu sýnishornin úr Star Wars: Episode I – The Phantom Menace lofuðu líka góðu en endanlega afurðin var eitthvað sem á frekar heima í plastpoka í úlpuvasa hundaeiganda en á hvítu tjaldi. Kaflar 2 og 3 voru litlu skárri.

En það þýðir víst ekki að velta sér upp úr fortíðinni. Episode VII mun aldrei hafa sömu áhrif á okkur og upprunalega trílógían en J. J. Abrams, maðurinn við stjórnvölinn, virðist vita hvað hann er að gera. Það er ástæða til bjartsýni.

En hvernig getum við stytt þessa óralöngu bið? Við erum að tala um rétt tæplega fulla meðgöngu þar til myndin ratar í bíó. Drepum við ekki bara tímann með langri og stefnulausri bloggfærslu um Stjörnustríð? Stútfullri af sturluðum staðreyndum um Star Wars!

BikiniVissir þú að það eru til Star Wars–sundbolir? Við erum ekki að tala um gullbikiní eins og Lilja prinsessa klæddist í Return of the Jedi heldur sundboli sem eru hannaðir til að líkjast vélmennunum C-3PO og R2D2.

Hér til hliðar má sjá þennan furðulega klæðnað. Vissulega hefur alltaf verið smá togstreita á milli fyrrnefndra vélmenna en þau hárreittu aldrei hvort annað. Þú getur keypt svona sundboli víðsvegar á internetinu. Til dæmis hér.

Það er að koma sumar. Það er ekki til ein einasta ástæða til að kaupa sér ekki svona sundbol! Við bíðum hins vegar spennt eftir Jabba the Hut sundbolnum.

Að öðru.

BB-8Rúllandi boltavélmennið úr fyrstu stiklu The Force Awakens vakti mikla og verðskuldaða athygli. Sérstaklega eftir að út kvisaðist að um raunverulegt vélmenni væri að ræða — ekki tölvutæknibrellur.

Við tókum þessu að sjálfsögðu með fyrirvara … alveg þangað til í gær þegar myndband tekið á einhverri lúðaráðstefnu var birt á netinu. Þar er vélmennið, sem ber hið ágæta nafn BB-8, kynnt á svið af sjálfum R2D2 og óhætt er að segja að það sé töfrum líkast.

Hvernig í eldheitum andskotanum virkar þetta? Það var alvöru manneskja inni í R2D2 (hér má sjá hana borða samloku) en það er útilokað að finna einhvern sem passar inn í BB-8. Er hamstur þarna inni eða er þetta í alvörunni vélmenni? Sem virkar?

Ja hérna!

Gömul konaÝmsum brögðum er beitt til að gera Star Wars-heiminn sem raunverulegastan. Palpatine lávarður, hið illasta af öllu illu, hefur komið mikið við sögu í myndunum og þykir hinn mesti durtur og dusilmenni. Það sem fáir vita hins vegar er að í kvikmyndinni The Empire Strikes Back var Palpatine leikinn af gamalli konu. Ókei, kannski ekki alveg „gamalli“ konu, en það er samt fyndnara en að segja bara „konu“.

Það æxlaðist þannig að keisarinn illi átti að hafa yfir sér ómanneskjulegt yfirbragð, enda birtist hann sem svokölluð heilmynd, eða hologram. Þetta leysti förðunarbrellumeistarinn Rick Baker snilldarlega. Hann smellti leir í andlitið á eiginkonu sinni, Elaine Baker, og túlkaði hún þetta ógleymanlega illmenni. Að vísu bara í þessari einu mynd, síðar voru karlar fengnir í djobbið. En samt. Palpatine var gömul kona.

Viljið þið sjá Star Wars–flugvél?

2.0Eitt sturlaðasta stöntið í kringum útgáfu nýju Star Wars–myndarinnar er R2D2–flugvélin sem japanska flugfélagið ANA (All Nippon Airways) tekur í notkun næsta haust.

Um er að ræða vél af gerðinni Boeing 787-9 Dreamliner, sem væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema vegna þess að hún er máluð eins og R2D2. Níu aðrar vélar verða í Star Wars–flota ANA en ekki er vitað hvernig þær munu líta út.

Við bindum að sjálfsögðu vonir við að í pakkanum leynist Chewbacca–vél — fóðruð að utan með brúnu hári.

Jar JarEitt í viðbót.

Ahmed Best, maðurinn sem lék Jar Jar Binks í The Phantom Menace, trúir því í alvörunni að almenningur hafi tekið persónuna í sátt.

„Eftir því sem lengra hefur liðið er fólk að byrja að gera sér grein fyrir því að það sem það sagði um Jar Jar á sínum tíma var svolítið út í hött,“ sagði hann í viðtali við MTV árið 2010.

Nei Ahmed, það segir það ekki einn einasti maður! Farðu og leggðu þig. Það er öllum í heiminum jafn illa við Jar Jar og þeim var við fyrstu kynni árið 1999.

Segjum þetta gott í bili af sturluðum Star Wars–staðreyndum. Ef þið lesið þetta er aldrei að vita nema að von sé á framhaldsfærslu síðar. Góða helgi og Han skaut fyrst!