helgi

Góða Helgi!

5. júní 2015


Það er að koma helgi og í tilefni af því ákváðum við hér á Brandenburg að velja okkar uppáhalds–Helga. Allir starfsmenn tóku þátt og tilvitnanir fylgja hverjum Helga. Úr mörgum er að velja og eftir að talnaspekingar okkar hafa farið yfir niðurstöðurnar raðast listinn svona:Screen Shot 2015-06-05 at 11.21.1410. Helgi Ólafsson

Helgi er einn sigursælasti skákmaður Íslandssögunnar og hefur sex sinnum orðið Íslandsmeistari í skák. Frægðarsól hans reis sem hæst á 9. áratug síðustu aldar — þegar íslenskir skákmenn voru stórstjörnur, líkt og handknattleiksmenn og tónlistarfólk dagsins í dag.

Þeir tímar liðu því miður undir lok og er orðið ansi langt síðan afreksmanni í skák hefur verið hleypt fram fyrir í röðinni inn á Kaffibarinn. En Helgi teflir enn og er að mati Brandenburgara tíundi besti Helgi Íslandssögunnar.

„Helgi er einstakur íþróttamaður. Hrókarnir leika um fingur hans eins og bráðið smjör. Ég myndi ekki vilja mæta honum í hraðskák.“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 11.29.349. Helgi Hjörvar

Þingmaðurinn Helgi er töffari af guðs náð. Hann er í pólitík fyrir fólkið — ekki sjálfan sig. Heiðarleiki og fagmennska út í gegn. Hálfgerður túnfífill í mykjuhaugnum við Austurvöll.

Það þekkja allir Helga á útliti hans og fasi. Hann er líka eini maður landsins, fyrir utan meðlimi Singapore Sling, sem púllar það að vera með sólgleraugu inni.

„Það er lítið um kynþokka á Alþingi en Helgi hífir heildina upp um mörg level. Lendar mínar titra!“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 11.37.228. Helgi magri

Eini landnámsmaðurinn á listanum en Helgi magri nam land í Eyjafirði. Hann fæddist á Írlandi og var ungur að árum látinn í fóstur á Suðureyjum — eyjaklasa við Skotland. Þegar foreldrar Helga sóttu hann tveimur vetrum seinna var hann svo horaður eftir vistina að hann fékk viðurnefnið magri.

Eftir honum er nefnd gatan Helgamagrastræti á Akureyri — sem er í hópi undarlegustu götuheita/örnefna landsins ásamt Munkaþverárstræti, Sænautaseli og Sautjánda júnítorgi.

„Af mörgum góðum held ég mest upp á Helga magra af landnámsmönnunum. Hann er fyrirmynd þegar kemur að líkamsvirðingu og hann nam land betur en allir aðrir.“

 

 

Screen Shot 2015-06-05 at 11.49.557. Helgi Seljan

Hann hefur yfirbragð pörupiltsins en er líklega einn besti fjölmiðlamaður landsins. Það kemst enginn óskaddaður úr stólnum hjá Helga í Kastljósinu. Hann þjarmar duglega að viðmælendum sínum og lætur þá ekki komast upp með neitt helvítis rugl.

Svo vita það ekki margir, en Helgi er pönkari og daðrar meira að segja við dauðarokkið, enda er hann meðlimur Reyðarfjarðarmafíunnar svokölluðu. En á bak við þessa grjóthörðu skel leynist mjúkur og gegnheill maður með allt sitt á hreinu.

„Ég elska Helga en ég er reyndar með svona „bad boy“–blæti. Hann má yfirheyra mig hvenær sem er!“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 12.00.426. Helgi Björns

Það eru ansi mörg ár liðin frá því að Helgi Björns var ungt kyntröll sem játaði að tunglið væri ostur. En þrátt fyrir að Helgi sé nú á sextugsaldri hefur kynþokkastuðullinn ekki farið niður um millimetra — nema síður sé.

En Helgi er auðvitað meira en bara fagurt fés. Hann er fínasti söngvari, lunkinn leikari og goðsagnakenndur drallspeni. Já, þar sem Helgi er — þar er fjör!

„Hvað getur maður sagt um Helga? „Þjóðargersemi“ er bara ekki alveg nógu sterkt lýsingarorð. Þó það sé reyndar ekki lýsingarorð. Það er nafnorð.“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 14.14.265. Helgi Skúlason

Það er ekki víst að þeir sem eru fæddir eftir 1990 hafi hugmynd um hver Helgi heitinn Skúlason er. Það er synd því Helgi er einn magnaðasti leikari sem þjóðin hefur átt. Dimm og rám röddin var hans helsta einkenni og las hann inn á ógrynni auglýsinga.

En það voru ekki bara Íslendingar sem dýrkuðu og dáðu Helga. Svíar gerðu það líka, enda lék Helgi stórt hlutverk í kvikmyndinni Hrafninn flýgur sem Svíar líta á sem heilaga, hvernig svo sem stendur á því. Ekki það, hún er vissulega þrælskemmtileg — eins konar Rambó okkar Íslendinga.

„Það hefði þurft að klóna þessa rödd. Allir hljóma eins og mjóróma aular í samanburði við Helga.“

Ítarefni: Sænski súkkulaðidrykkurinn Pucko og Helgi Skúlason

 

Screen Shot 2015-06-05 at 14.47.344. Helgi í Góu

Viðskiptajöfurinn og mannvinurinn Helgi í Góu nýtur aðdáunar meginþorra landsmanna enda rekur hann sinn bisness með öðrum hætti en þekkist hér á landi. Hann er nefnilega ekki bara „in it for ðe monní“ eins og allt of margir, því miður.

Helgi hugsar vel um starfsfólkið sitt, þykir borga sanngjörn laun fyrir störf sem almennt eru talin láglaunastörf og reynir svo ofan á allt saman að hafa jákvæð áhrif á samfélagið.

Núna hyggur hann t.d. á byggingu íbúðablokkar þar sem hann vill leyfa starfsfólki sínu að leigja ódýrt svo það eigi auðveldara með að koma undir sig fótunum. Hann er með mikið af ungum starfsmönnum í vinnu og margir þeirra mennta sig samhliða því að djúpsteikja heimsins frægasta kjúlla.

Svo býr Helgi líka til Flórída–súkkulaðið. Það eitt og sér ætti að nægja til þess að hann fengi fálkaorðu á hverju ári.

„Flestir íslenskir viðskiptamenn eru eins og sambland af Mr. Burns og Patrick Bateman. Ekki Helgi í Góu. Hann er meira eins og blanda af Nelson Mandela og sykurpúða.“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 14.47.573. Helgi Pírati

Við viðurkennum það fúslega að við vorum ekki viss með hann Helga Pírata þegar hann tók sæti á Alþingi á sínum tíma. Hann var ungur, reynslulaus og algjör lúði.

Svo kom í ljós að hann er bara alls enginn lúði. Hann er reyndar nörd en það er mikill munur á lúðum og nördum. Nördar eru skemmtilegir, réttsýnir og gríðarlega klárir. Lúðar eru hins vegar félagslega heftir menn sem gyrða buxurnar of hátt og borga fyrir Tinder.

Helgi hefur blómstrað í þinginu og af stjórnarandstöðuþingmönnunum er hann sá sem sýnir oftast klærnar. Það verður einhver að gera það. Svo hefur hann talað opinskátt um hluti á borð við þunglyndi og einelti — hvort tveggja eitthvað sem hann þekkir af eigin reynslu.

Áfram Helgi — við höfðum rangt fyrir okkur!

„Helgi er maður fólksins. Sjarmerandi nörd sem er óhrætt við að tala máli lítilmagnans.“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 14.49.202. Helgi Hóseasson

Í augum margra var mótmælandinn Helgi Hóseasson furðufugl. Hann stóð með skiltin sín við Langholtsveginn eða á Lækjartorgi sama hvernig viðraði og fæstir skildu í þessari þrjósku gamla mannsins að krefjast riftunar skírnarsáttmála síns, sem er merkingarlaust plagg fyrir trúleysingja eins og Helga.

Hann varð landsfrægur árið 1972 þegar hann sletti skyri á alþingismenn, forseta Íslands og biskup þar sem þeir gengu til setningar Alþingis. Í kjölfarið var hann lagður inn á Klepp en sleppt lausum skömmu síðar þar sem hann var úrskurðaður heill á geði.

En Helgi mótmælti ekki bara fyrir sjálfan sig. Hann mótmælti einnig stríðsbrölti stórveldanna og þátttöku Íslands í Íraksstríðinu. Eitthvað sem fáir nenntu að gera. Mótmælin höfðu að vísu engin áhrif. Að minnsta kosti ekki önnur en þau að við minnumst Helga með hlýju og þakklæti. Enn er því hins vegar ósvarað hver skapaði sýkla.

„Þeir sletta skyrinu sem eiga það. Er ekki hægt að reisa styttu honum til heiðurs með þessari áletrun?“

 

Screen Shot 2015-06-05 at 09.34.331. Helgi P

Besti Helgi landsins. Það er ekki nokkur einasta spurning. Helgi P stóð vaktina um áratugaskeið með Ríó Tríóinu og hefur verið kærkominn gestur á sjónvarpsskjám landsmanna í næstum því hálfa öld.

Allir þekkja smjörlíkisauglýsinguna þar sem Helgi og félagar syngja um hvað Ljóminn er ljómandi góður og öll munum við þegar Helgi talaði norsku við Bobbysocks í undankeppni Eurovision 1986.

Helgi er með fallegasta yfirskegg landsins og er sannkallað glæsimenni að utan jafnt sem innan. Hugsjónamaður sem barðist gegn landeyðingu á hálendinu á fyrri hluta 9. áratugarins með slagaranum Landið fýkur burt. Svo koma jólin ekkert fyrr en Léttur yfir jólin fer á fóninn.

Já, okkur þykir vænt um Helga P. Megi hann lengi lifa og allir hans afkomendur. Ljúkum þessu með því að horfa saman á besta myndbrot íslenskrar sjónvarpssögu — viðtal Helga við dansarann og monthanann Gunnlaug Guðmundsson frá árinu 1975.

Góða helgi!