forn

Fornleifauppgröftur

9. júní 2015


Fyrir utan stóra gluggann okkar á Brandenburg fer nú fram leiðinlegasti og óáhugaverðasti fornleifauppgröftur mannkynssögunnar. Til stendur að byggja verslanaklasa með íbúðum, bílastæðakjallara og allskonar gotteríi en áður en það verður gert þarf að tryggja að ekki verði valtað yfir verðmæti fortíðar.

Screen Shot 2015-06-09 at 13.19.55Reyndar þótti ekki tiltökumál að malbika bílastæði þarna yfir á sínum tíma en nú freista menn gæfunnar í von um að finna fjársjóð, beinagrind eða allavega eitthvað pínulítið merkilegt.

Því miður eru störf fornleifafræðinga ekki jafn spennandi og kvikmyndir hafa talið okkur trú um. Að minnsta kosti ekki á Íslandi. Fornleifar sem finnast hér á landi eru yfirleitt kindabein, ryðgaðir örvaroddar eða gömul eldhúsáhöld. Fornleifafræðingar komast aldrei í hann krappan og eiga svo sannarlega aldrei fótum sínum fjör að launa.

tumblr_nbth64oETC1snwqclo1_540Minjasöfn á Íslandi sýna þetta svart á hvítu, enda safngripirnir þar yfirleitt álíka spennandi og kusk í úlpuvasa.

Með þessu erum við vonandi ekki að móðga íslenska fornleifafræðinga. Það er ekki þeim að kenna að þeir fæddust í röngu landi.

En á meðan norpandi fræðimenn rýna í moldina hér fyrir utan lumum við á merkum fornleifum hér innan veggja Brandenburgar. Þær má finna í blessuðum ísskápnum okkar. Skyr frá hippatímabilinu, samlokur frá landnámsöld, túnfisksalat frá bronsöld — þetta er allt þarna.

Sama hvað yfirmenn kvarta og kveina þá verndar fólkið á gólfinu þessar merku leifar. Það er virðingarvert, enda eru þetta menningarverðmæti sem verða í framtíðinni frábær heimild um matarvenjur fólks á 21. öldinni.