goldfinger-24sh (1)

Flottustu James Bond–veggspjöldin

18. nóvember 2015


„Er það af því að það er retró?“ hvæsti hönnuðurinn á textasmiðinn, eftir að sá síðarnefndi hafði bent á Thunderball–veggspjaldið sem sitt uppáhald. „Ég get sýnt þér svona þúsund dæmi um flottara retró!“

Við vorum semsagt að velja uppáhalds James Bond–veggspjöldin okkar í tilefni af því að Spectre, nýjasta myndin í þessum sívinsæla myndaflokki, er komin í kvikmyndahús. „Hönnun“ hefur alltaf verið stór hluti af James Bond–heiminum, burt séð frá því hvað manni finnst um hönnunina, en til viðbótar við hefðbundna veggspjaldahönnun má nefna hönnun á titlasenum, fararskjótum aðalpersónunnar í myndunum sjálfum, úrum og fatnaði og svo mætti lengi telja. Já, það má vissulega færa rök fyrir því að veröld James Bond snúist að miklu leyti um útlitið.

En nóg um það. Vindum okkur í aðalatriðið; plakötin.

Framkvæmdin var einföld. Við prentuðum út veggspjöld fyrir hverja einustu mynd, allt frá einu og upp í fjögur fyrir hverja, og svo krotuðu starfsmenn við þau sem þeim þótti best. Það hefði auðveldlega verið hægt að prenta út þúsund plaköt, svo mörg eru þau, en við héldum okkur við þau bresku og bandarísku og grisjuðum frá þau sem þóttu of svipuð. Hefst þá niðurtalning:

OCTOPUSSY

10. sæti: OCTOPUSSY (1983)

Verður maður ekki að skrifa eitthvað hér? Fólk var hrifið af handleggjamagninu á þessu plakati. Einhverjum fannst þetta reyndar mökkljótt. Þannig var það reyndar um langflest plakötin. Það er eins og það er.

QUANTUM OF SOLACE

9. sæti: QUANTUM OF SOLACE (2008)

Þetta veggspjald er svokallað teaser–plakat sem kom út löngu áður en myndin var fullkláruð. Eftir því sem blogghöfundur kemst næst var þetta í fyrsta sinn sem það var gert. „Dularfullt,“ sagði einn á meðan önnur sagði „óspennandi“. Enda erum við ennþá bara í 9. sæti.

FROM RUSSIA WITH LOVE

8. sæti: FROM RUSSIA WITH LOVE (1963)

Reyndar lítur Sean Connery meira út eins og Robert De Niro á þessu veggspjaldi heldur en James Bond. Þarna spila svartur og hvítur fallegan bolta með rauðum, þó leturgerðirnar séu vissulega óhóflega margar. En hey, árið var 1963!

THE LIVING DAYLIGHTS

7. sæti: THE LIVING DAYLIGHTS (1987)

Fallegt í einfaldleika sínum og síðasta flotta veggspjaldið í mjög langan tíma. Til dæmis fékk ekki eitt einasta Pierce Brosnan–plakat eitt einasta atkvæði. En það er líka mjög góð ástæða fyrir því — þau eru öll hræðileg.

THUNDERBALL

6. sæti: THUNDERBALL (1965)

Léttleiki og litadýrð einkenna þetta veggspjald. Þetta var einmitt plakatið sem vakti reiði hönnuðarins sem sagt er frá í upphafi bloggs. En textasmiðurinn reyndist ekki vera alveg úti á þekju þar sem Thunderball–veggspjaldið fékk á endanum fullt af atkvæðum.

A VIEW TO A KILL

5. sæti: A VIEW TO A KILL (1985)

Lýsingarorðið „ævintýralegur“ á líklega ekki betur við neitt James Bond–veggspjald og þetta hér. Myndin sýnir lokasenu myndarinnar, háskann á brúnni, illmennið í loftskipinu og stúlkuna sem heldur þéttingsfast um hetjuna. Þetta er auðvitað klisja, en útfærslan er glæsileg!

DR. NO

4. sæti: DR. NO (1962)

Fyrsta myndin, fyrsta veggspjaldið. Auðvitað spilar það heilmikið inn í að það er eldgamalt og krúttlegt. En þarna þurfti að kynna James Bond–fyrir heimsbyggðinni í fyrsta sinn og plakatið neglir týpuna algjörlega.

SPECTRE

3. sæti: SPECTRE (2015)

Annað teaser–veggspjald og í þetta sinn tilheyrir það nýjustu myndinni. Einfalt og órætt, án þess þó að vera tilgerðarlegt. Og ennþá betra ef maður er búinn að sjá myndina.

A VIEW TO A KILL

2. sæti: A VIEW TO A KILL (1985)

Ha? Aftur?! Jú, A View to a Kill er sigursæl í þessari kosningu og kemst tvisvar á blað. Þetta veggspjald fékk meira að segja jafnmörg atkvæði og það sem endaði í fyrsta sæti en því miður var það skjaldarmerkið sem kom upp. Og þá er komið að fyrsta sætinu…

FOR YOUR EYES ONLY

1. sæti: FOR YOUR EYES ONLY (1981)

Þetta plakat hefur allt. Eldgamlan Roger Moore í pósu, kvenmannsleggi, lásboga, skíði, vélhjól, kafara, sjóflugvél, leigumorðingja, stinnar rasskinnar, skip, sprengingar, vélmennakafbát, bíla í loftköstum, þyrlu–action og hákarl. Veggspjaldinu tekst eiginlega að afsanna endanlega kenninguna um að minna sé meira. Enda er hún bull. Meira er klárlega meira. Alltaf meira!

En já, þá er þessu lokið í bili. Roger Moore er sigurvegari kosninganna með fjögur plaköt, Sean Connery kemur þar á eftir með þrjú, Daniel Craig fær tvö og Timothy Dalton eitt. Aumingja Brosnan og Lazenby.

Pierce Brosnan var allt annað en ánægður þegar honum bárust úrslit kosninganna.

Pierce Brosnan var skiljanlega brugðið þegar honum bárust úrslit kosninganna.