crystal-ball-ss-1920

Völvuspá Brandenburgar 2016

4. janúar 2016


Við brydduðum upp á þeirri nýjung um síðustu áramót að fá völvu til þess að spá í spilin fyrir árið 2015. Völvan var svona temmilega sannspá, þá kannski helst varðandi „skyndibitastaðinn“ sem var opnaður á árinu.

„Þá segist völvan sjá opnun nýs skyndibitastaðar á höfuðborgarsvæðinu og telur hún að Brandenburg muni sjá um að nefna staðinn, hanna lógó og annað auglýsingaefni.“

Þessi hluti gekk eftir að hluta, þó nafnið og lógóið hafi reyndar fylgt staðnum frá útlöndum. Við erum að sjálfsögðu að tala um Dunkin’ Donuts, en við sáum einmitt um auglýsingar þessa nafntogaða kleinuhringjarisa og gerum enn. En völvan er komin aftur á stjá og við báðum hana um spá fyrir næsta ár.

Screen Shot 2016-01-04 at 10.43.53„Ef ykkur fannst 2015 vera fáránlegt ár þá segi ég bara „you ain’t seen nothing yet“,“ segir völvan og vitnar þar með í forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson. Og talandi um forsetann, hann er það fyrsta sem völvan sér.

„Ólafur gefur ekki kost á sér aftur eins og fram er komið. Um embættið berjast þau Þorgrímur Þráinsson, Arnþrúður Karlsdóttir, Johnny King og fjölmargir aðrir furðufuglar. Alls verða yfir 200 nöfn á kjörseðlinum en aðeins einn alvöru frambjóðandi: Valgeir Magnússon auglýsingamaður, eða Valli sport og sigrar hann auðvitað með yfirburðum.

„Valli verður góður forseti. Það verður ekki síst einum nánasta samstarfsmanni og ráðgjafa forsetans, Sigga Hlö, að þakka.“

Forsetinn samþykkir umdeild auglýsingalög þar sem þekktar klisjur úr bransanum verða gerðar útlægar og mega þeir eiga von á háum sektum sem dirfast að tala um „frábær verð“, „upplifanir“ af öllu tagi og að „elska“ eitthvað. Fyrirsagnasmiðir landsins neyðast í kjölfarið til að rifja upp löngu gleymda takta og semja nýjar fyrirsagnir — í fyrsta sinn síðan fyrir hrun.

„Og fyrst við erum að tala um tímabilið fyrir hrun,“ segir völvan og tekur sopa af heitu minkatunguseyði. „Hinn forni Íslandsvinur, Hard Rock Café, mun lenda í útistöðum við borgaryfirvöld.“

8a8fa585-a7fc-43ce-aad1-2cedf73cef7eEins og greint hefur verið frá er veitingastaðurinn Hard Rock Café væntanlegur hingað til lands á ný, á besta stað í miðborginni — Iðuhúsinu við Lækjargötu. En illa reynist að fá leyfi fyrir hálfa bílflakinu fyrir ofan innganginn, sem var einskonar kennimerki Hard Rock í Kringlunni á sínum tíma.

„Þetta samrýmist ekki stefnu borgaryfirvalda um minni áherslu á einkabílinn. Þessi sundursagaða bensínsvolgrandi ameríska drossía er holdgervingur einkabílafrekjunnar og þrátt fyrir mikil mótmæli Hard Rock, Fornbílaklúbbsins og Björns Jóns Bragasonar verður kagginn ekki settur upp. Sem málamiðlun verður reiðhjól sett fyrir ofan innganginn, en því verður reyndar stolið áður en árið er á enda.“

Völvan segir ásýnd miðborgarinnar verða meira til umræðu á árinu en hafnargarðsævintýri forsætisráðherra fær skjótan endi þegar gröfukarlar bora sig niður í risavaxna heitavatnsuppsprettu á umtalaðasta reit borgarinnar undanfarin ár.

b88fa4a7-3205-4d0b-8650-7ffa7c7f5fd1„Verandi tækifærissinnar þá breytum við reitnum umsvifalaust í jarðböð fyrir túrista, sem munu borga svimandi háar upphæðir fyrir að fá að svamla í brundi og naflakuski undir ljósmenguðum norðurljósadansi á Geirsgötunni.“

Fleira sér völvan ekki í kúlunni að þessu sinni. Við hjá Brandenburg óskum ykkur öllum gleðilegs nýárs og þökkum innilega fyrir lesturinn.