AMputin

Forsetarnir sem aldrei urðu

6. maí 2016


Flest höfum við mátað okkur í huganum í stól forseta Íslands. Til allrar hamingju erum við upp til hópa raunsæir einstaklingar og eltumst frekar við raunhæfari drauma — annars væru 15.000 manns í framboði núna í stað 15. Eru frambjóðendurnir ekki annars 15? Er einhver að halda utan um þessar tölur?

Alls hafa 16 manns tapað í forsetakosningum á Íslandi frá fyrstu kosningunum árið 1952. Sumir hafa tapað með örlitlum mun á meðan aðrir hafa verið brókaðir upp yfir haus. Minnst hafa verið tveir í framboði og mest, þar til nú, sex. Við skulum vinda okkur í smá sögukennslu og fræðast eilítið um fólkið sem vildi á Bessastaði en hafði ekki erindi sem erfiði.

Screen Shot 2016-05-03 at 09.12.02

Það var lítið um sprell í kosningunum 1952.

Hinn íslenski Ralph Nader
Ásgeir Ásgeirsson rétt marði sigur á Bjarna Jónssyni vígslubiskupi í kosningunum ’52. Ásgeir fékk 32.924 atkvæði en Bjarni 31.045 atkvæði. Við erum að vísu ekki vel að okkur í 65 ára gamalli íslenskri pólitík en Bjarni hefði ekki einu sinni þurft öll 4.255 atkvæði þriðja frambjóðandans, Gísla Sveinssonar, til þess að standa uppi sem sigurvegari.

Þetta gerir Gísla að hálfgerðum Ralph Nader í íslenskri pólitík, en Nader hefur fjórum sinnum boðið sig fram til forseta Bandaríkjanna. Tvisvar sem frambjóðandi „Græna flokksins“ og tvisvar sem óháður. Fylgi hans hefur aldrei verið mikið en ein kenningin er sú að hann hafi tekið til sín þau atkvæði sem Al Gore þurfti til að vinna George W. Bush í kosningunum 2000.

Screen Shot 2016-05-03 at 09.39.19

Slagurinn ’68 var séntilmannlegur þrátt fyrir að upp úr hafi soðið á blaðamannafundi þar sem Gunnar og Kristján voru vigtaðir.

En að öðru. Finnst ykkur Gísli ekki líkur James Cagney? Eða fyrir ykkur sem eruð ekki fædd í upphafi síðustu aldar: finnst ykkur hann ekki líkur Ed Harris?

Maður á mann
Forsetakosningarnar 1968 voru hálfgerðir hnefaleikar. Aðeins tveir voru í framboði, þeir Kristján Eldjárn og Gunnar Thoroddsen, en sá síðarnefndi skítdrullutapaði. Það er leiðinlegt að segja það en það er samt satt.

Kristján fékk næstum tvöfalt fleiri atkvæði en Gunnar en þeim síðarnefnda til hróss má taka það fram að hann skítdrullutapaði með sæmd. Ekkert „telja aftur“–rugl, úrslitin ekki kærð, ekki farið heim í fýlu, nei nei. Gunnar óskaði Kristjáni til hamingju og lét þar við sitja.

Kona á ekki mann
Eldjárnið sagði þetta gott eftir 12 ár í embætti og við erum því komin til ársins 1980. Í framboði voru fjórir — eða nánar tiltekið: fjögur! Já, eftir 36 ár af pungfýlu var kona loksins í framboði. Ekki nóg með það, heldur átti konan ekki einu sinni mann (nei hættu nú alveg!). Frambjóðendurnir voru Albert Guðmundsson, Guðlaugur Þorvaldsson, Pétur J. Thorsteinsson og fyrrnefnd einhleyp kona, Vigdís Finnbogadóttir.

Einhverjum karlakarli fannst sniðugt að berja á Vigdísi á einum framboðsfundinum með ósmekklegustu spurningu sem frambjóðandi hefur fengið frá upphafi. Hann spurði Vigdísi hvort það myndi ekki há henni í embættinu að vera aðeins með eitt brjóst. Vigdís, sem hafði látið fjarlægja annað brjóst sitt vegna krabbameins, lét karlugluna þó ekki slá sig út af laginu og svaraði um hæl: „Það stóð nú aldrei til að hafa þjóðina á brjósti.“ — og makaði svo vænni slettu af bossakremi á manngarminn eftir rassskellinguna. Vigdís sigraði naumt í kosningunum en sigurinn var sætur.

foss

Karlarnir voru allir vel giftir og ófeimnir við að vekja athygli á því. Svo rassskellti Vigdís þá alla.

Húsfluga kramin
Vigdís sat fjögur kjörtímabil og ekki voru forsetakosningar á Íslandi fyrr en 1996 — með einni undantekningu (sem flestir eru búnir að gleyma). Árið 1988 gaf Sigrún nokkur Þorsteinsdóttir, húsmóðir úr Vestmannaeyjum, kost á sér til embættisins. Það þarf vart að taka það fram að Sigrún bættist í kjölfarið í hinn sístækkandi hóp fólks sem hafði skítdrullutapað í forsetakosningum á Íslandi. Vigdis kramdi Sigrúnu eins og flugu með 92,7% greiddra atkvæða og sat tvö kjörtímabil til viðbótar.

asthor

Ástþór (t.v.) var alltaf á svipinn eins og einhver hefði skitið í skóinn hans. Í þessu tilfelli Bill Clinton, þáverandi Bandaríkjaforseti.

Öld Ástþórs
Það voru fimm manns í framboði árið 1996 eftir að Vigdís lét af embætti. Fremstur meðal jafningja var Ólafur „Skattmann“ Grímsson, sem eins og allir vita bar sigur úr býtum og lét logsjóða rassinn á sér við forsetastólinn í kjölfarið. En hverjum er ekki sama um Ólaf? 1996 var árið sem færði okkur einn þrautseigasta forsetaframbjóðanda lýðveldissögunnar, Ástþór moðerfokking Magnússon!

Eftir að einn frambjóðandinn dró sig úr keppni stóðu fjórir eftir og það voru því þrír frambjóðendur sem skítdrullutöpuðu fyrir Ólafi. Ástþór skítdrullutapaði þó allra mest, en hann fékk einungis 2,7% atkvæða. En eins og sönnum keppnismanni sæmir var hann ekki af baki dottinn. Ástþór bauð sig aftur fram árið 2004 (og hlaut 0,9% greiddra atkvæða), 2008 (framboð dæmt ógilt (dómaraskandall)) og nú seinast í ár.

Auglýsingarnar
Það sem færir forsetaslaginn 1996 nær áhugasviði okkar en fyrri kosningar er sú staðreynd að á þeim tímapunkti byrjuðu frambjóðendur að auglýsa í meira mæli. Það hefur svo sem enginn verið að vinna neina Lúðra fyrir framboðsauglýsingar sínar en í dag er þetta orðið standard.

Ef þú ferð í framboð þá auglýsirðu þig. Í dagblöðum, tímaritum, útvarpi og sjónvarpi, á ljósastaurum, rafmagnskössum og stuðurum, á vefmiðlunum og samfélagsmiðlunum. Þú gefur kaffi og kleinur, pylsur og hamborgara, brennivín og bjór. Þú færð stuðningsfólk þitt til að boða fagnaðarerindið í matarboðum, heitum pottum og á síðum dagblaðanna. Vonar síðan að þau geri ekki lummó tónlistarmyndband og setji á YouTube. Nema ef þú ert Ástþór. Þá gerirðu myndbandið sjálfur.

augl

Framboðsauglýsingarnar eru margar og mismunandi. Allar eiga þær þó það sameiginlegt að innihalda froðusnakk.

Eilífur Ragnar Grímsson
Ólafur hefur setið sleitulaust frá árinu 1996 og á honum er ekkert fararsnið. Listinn yfir þá sem hafa skítdrullutapað fyrir honum er langur og blóði drifinn. Þóra Arnórsdóttir (2012), Baldur Ágústsson (2004), Guðrún Agnarsdóttir (1996), Ari Trausti Guðmundsson (2012) … þetta eru bara nokkrir af handahófi. Í sumar gæti listinn svo orðið enn lengri. Ari Jóseps, Elísabet Jökuls, Texas–Maggi og ótal aðrir bíða á færibandinu eins og lömb á leið til slátrunar.

Tveir frambjóðendur gætu þó veitt Ólafi verðuga samkeppni. Það eru þeir Andri Snær Magnason, náttúruverndarsinni og ljóðahippi — og Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, rithöfundur, blóðgjafi og uppgjafahandknattleiksmaður. Svo má ekki gleyma því að framboðsfresturinn er ekki runninn út og því ekki hægt að útiloka að einhverjir þungavigtarframbjóðendur stígi fram.

Hafið þið heyrt um Texas–Magga?

Hafið þið heyrt um Texas–Magga?

Við á Brandenburg tökum ekki afstöðu til einstakra frambjóðenda, þó við viðurkennum það fúslega að það væri ágætis afþreying í vændum með einhvern eins og Texas–Magga á Bessastöðum. Við, líkt og flestir aðrir, rífumst um ágæti forsetaefnanna daginn út og inn. Komum eiginlega engu í verk þessa dagana af þeim sökum.

„Ólafur Ragnar er elliær egóisti.“ „En hann bjargaði landinu frá fjárhagslegri glötun?“ „Andri Snær er óvinur atvinnulífsins númer eitt.“ „En Draumalandið er frábær bók og hann fílar náttúruna. Hver fílar ekki náttúruna?“ „Ari Jósepsson er … spes.“ *þögn*

Já, þetta skýrist allt á komandi vikum og mánuðum. Við ætlum bara að njóta þess að sjá þessa fræknu frambjóðendur skiptast á að úrbeina hvert annað, okkur hinum til ómældrar ánægju og skemmtunar. Að því loknu getum við svo vonandi farið aftur að vinna.