quality_street_1

Hræðilegar fréttir frá Englandi

23. september 2016


20121006-141413

Það var þungskýjað yfir Bretlandseyjum í dag.

Siturðu?

Við færum þér nefnilega hræðilegar fréttir frá Englandi. Lúalegt að gera þetta svona á föstudegi, við vitum það, en það er stutt til jóla og fólk þarf að gera ráðstafanir. Þannig er nefnilega mál með vexti að Quality Street–konfektið, eða „Makkintossið“ eins og við Íslendingar köllum það, verður með breyttu sniði héðan í frá.

Til stendur að fjarlægja einn molann úr dallinum og það er svo sannarlega enginn slormoli. Sá sem var valinn í hakkavélina er enginn annar en Toffee Deluxe, eða molinn sem gengur í hversdagslegu tali undir nafninu „brúni molinn“. Molinn sem við elskum öll — og reyndar molinn sem tannsmiðir hafa sérstakt dálæti á, en af öðrum ástæðum. Ekki ógeðslegi jarðarberjagumsmolinn, ekki viðurstyggilegi appelsínugumsmolinn … nei, það þurfti endilega að velja einn af bestu helvítis molunum. Afsakið orðbragðið, en tilfinningar okkar eru í miklu uppnámi eftir þessar fregnir.

Viðskiptavinurinn hefur EKKI alltaf rétt fyrir sér

Hvað er það sem getur fengið fyrirtæki til að taka þessa afleitu ákvörðun? Jú, auðvitað kvartanir frá viðskiptavinum. Væntanlega breskum viðskiptavinum, með handónýta bragðlauka eftir áratugalanga ofneyslu á Marmite og HP sósu, sem hafa ekki hugmynd um hvað bragðast vel og hvað ekki. Þessir ensku Indriðar vildu meina að það væru of margir toffímolar í Makkintossdollunum og það var tekið mark á þeim. Ótrúlegt!

800px-mackintosh_toffee_king

Arfleifð „Toffíkóngsins“ hangir á bláþræði.

Það er óhætt að geta sér til um það að John sálugi Mackintosh, faðir Makkintosssins, hringsnúist nú í gröf sinni, enda lá metnaður hans fyrst og fremst í toffíinu. Hann gekk svo langt að gefa sjálfum sér konungstign — eitthvað sem Fiskikóngurinn, Borgarakóngurinn og aðrir smákóngar öpuðu síðar eftir honum, en sjálfur kallaði hann sig „Toffíkónginn“. Að fjarlægja toffímola, þann langbesta af öllum toffímolunum meira að segja, úr dollunni er augljóslega í hrópandi mótsögn við allt sem Mackintosh gamli stóð fyrir.

Brexit 2.0

En hvað kemur í staðinn fyrir Toffee Deluxe? Jú, einstaklega ógirnilegur moli að nafni Honeycomb Crunch — innpakkaður í ljótt, gult sellófan, með stökkri hunangsklessu í miðjunni. Við höfum ekki smakkað hann en höfum það á tilfinningunni að hann eigi eftir að sitja óétinn á botni Makkintossbauka landsmanna eftir jól, ásamt fyrrnefndum gumsmolum.

Breskir fjölmiðlar fara hamförum vegna málsins og samfélagsmiðlar loga sem aldrei fyrr. Ástandinu má helst líkja við Brexit–málið í sumar, sem er kannski ekki skrýtið — Quality Street hefur ekki hróflað við molunum í vel á annan áratug. En ólíkt Brexit þá teygir þetta mál anga sína hingað til lands með áþreifanlegum hætti.

Við erum bara lítil auglýsingastofa á pínulítilli eyju úti á ballarhafi og höfum kannski ekki mikil áhrif. En engu að síður getum við ekki annað en reynt að hvetja gerendur í þessum hörmulega gjörningi til að endurskoða ákvörðun sína. Ef þeir gera það ekki getum við alveg eins blásið jólin af.