jolabod

Síðasta jólaboðið

14. desember 2016


Jólin. Kuldi, stress og óþolandi ættingjar. Er það nema von að sumum sé illa við jólin? Ekki nóg með það, heldur er núna röðin komin að þér að halda árlega fjölskyldujólaboðið.

Satan!

En örvæntu eigi. Við á Brandenburg erum nefnilega með nokkur skotheld ráð fyrir þig svo þú getir gert þetta að síðasta jólaboðinu sem þú heldur um ævina.

Vindum okkur í þetta!

100_2543

Aðeins er vitað um þennan eina mann í heiminum sem hefur gaman af því að moka og skafa. En hann er líka 45 ára og býr hjá móður sinni.

Það er ekkert sem heitir „of snemma“
Hefð er fyrir því að stór fjölskylduboð á jólum, t.d. á jóladag, hefjist annað hvort um hádegisbil eða um kvöldmatarleytið. Gerðu ættingjunum erfiðara fyrir með því að tímasetja boðið kl. 10:00.

Það er erfitt að koma sér á fætur að morgni jóladags og enn erfiðara að koma sér af stað út í vetrarkuldann. Það þarf að koma sér úr rúminu, fara í sturtu, klæða sig í sparifötin, gera börnin klár, skafa bílinn og keyra löturhægt í boðið, því það er jú alltaf fljúgandi hálka.

Þetta þýðir að gestirnir þurfa að vakna í seinasta lagi kl. 08:30 og verða því strax í byrjun mjög viðkvæmir fyrir því áreiti sem á þeim mun dynja.

 

Skrámur er vinur þinn
Fátt er jafn lýjandi til lengdar og leiðinleg jólamúsík. Vertu klár með andstyggilegan playlista og stilltu græjurnar nógu hátt til að þær trufli, en þó ekki svo hátt að einhver geri eitthvað í því. Það er kúnst að finna rétta hljóðstyrkinn, en þú munt uppskera ríkulega ef þú gefur þér tíma í þetta.

sg_-_019_-_a_-72p

Gáttaþefur hefur hrellt íslensk ungmenni frá árinu 1968.

Hafðu nóg af barnajólalögum á listanum, t.d. diskósyrpur Gunnars Þórðarsonar, falska barnakóra og Gáttaþefs–plötur Ómars Ragnarssonar í heild sinni. Spilaðu Skrámur skrifar jólasveininum á ca. 10 laga fresti. Hatrið mun byrja að krauma í hjörtum ættingja þinna, en enginn mun almennilega vita hvers vegna.

 

Óvinir sitja saman
Í flestum stórfjölskyldum má finna einhverja tvo sem hreinlega þola ekki hvorn annan. Þetta er yfirleitt eitthvað sem allir vita, en enginn talar um. Láttu þá sitja hlið við hlið.

Ekki reyna að etja þeim saman, það er óþarfi. Leyfðu þessu bara að gerast af sjálfu sér. Stemningin verður orðin óþægileg fyrir alla strax yfir forréttinum.

 

Bryddaðu upp á pólitík
Þar sem 10–30 manns koma saman er ekki fræðilegur möguleiki á að allir hafi sömu pólitísku skoðanir. Það ber að nýta. Komdu með sakleysislegt „jæja, það gengur bara ekkert að mynda ríkisstjórn?“ þegar allir eru sestir við borðið og gamanið mun kárna fljótt.

Leiðinlegi frændi þinn sem kaus Sturlu Jónsson mun byrja að rausa um kynjakvóta, vegan frænkan sem er aldrei í brjóstahaldara verður alveg brjáluð og rasistinn hún amma þín fer alveg upp úr þurru að úthúða hælisleitendum.

 

sorryitstoolateforyou_604c5b36b2dc85e17212f1defa4bc254

„After Eight? Nei takk, ég er að fara í annað jólaboð á eftir.“

Notaðu mat sem vopn
Þú vilt koma þessu fólki út sem fyrst, ekki satt? Veittu óhóflega af mat og drykk. Að nota stóra diska er til dæmis gott en vannýtt trix. Allir fá sér a.m.k. tvisvar á diskinn. Það eru nú einu sinni jól. Eftir tvo kúfaða diska af reyktu kjöti fara gestirnir að sjá síðdegisblund í hyllingum.

Ekki taka pásu eftir matinn. Berðu eftirréttinn strax á borð. Ístertur, kaffi og frómas eins og liðið getur í sig látið. Og gættu þess að hafa konfektskál í innan við metersradíus við hvern einasta gest.

Bjútíið við þetta er að það mun enginn gruna þig um græsku. Öllum mun líða hörmulega, en þeir munu kenna sjálfum sér um.

 

Brjóttu þau niður
Til að gulltryggja það að enginn vilji nokkurn tímann mæta í jólaboð til þín aftur er gott að koma með spurningar og athugasemdir sem hljóma sakleysislegar í fyrstu, en geta verið mjög óþægilegar. Þetta er vandmeðfarið, en æfingin skapar meistarann. Eldri konur eru sérfræðingar í þessu.

„Malt er bara eitt prósent,“ er í eðli sínu ósköp meinlaus fullyrðing, en þegar þú segir þetta hátt og snjallt við óvirka alkóhólistann í boðinu verður hún óviðeigandi.

Notaðu ímyndunaraflið. Allir eiga sína viðkvæmu bletti. „Ferð þú ekki að koma með eitt?“ við einhleypu stelpuna. „Viltu ekki frekar gefa honum mandarínu?“ við móður feita barnsins. Þú skilur hvert við erum að fara.

„Hækka nefskatt? Ertu að gera grín að mér, krakkaófétið þitt?!“

Sé þessum ráðum okkar fylgt minnka líkurnar á því að þú þurfir að halda fleiri jólaboð niður í ekki neitt. Og ef heppnin er með þér þá minnka einnig líkurnar á að þér verði boðið í jólaboð til annarra. Þá geturðu loksins látið drauminn rætast. Draum okkar allra um jól þar sem þú þarft aldrei að losa um beltið … því þú ert ekki einu sinni í buxum.