brandenblogg

5 ár af vitleysisgangi

17. mars 2017


Brandenburg stendur á tímamótum um þessar mundir, en stofan hefur nú starfað í fimm löng og asnalega skemmtileg ár. Á þessum tíma höfum við búið til fjöldann allan af sjarmerandi sjónvarpsauglýsingum, virðulegum vefborðum, hilaríus heilsíðum og eftirminnilegum innihaldslýsingum — já og fullt fleira. Það er freistandi að belgja sig út og blogga um alla þessa glæstu sigra, eins og til dæmis það að hafa verið valin auglýsingastofa ársins á ÍMARK deginum nú fyrir stuttu, en í alvörunni … hver nennir að lesa slíkt? Í staðinn ætlum við að opna bókhaldið og hrista beinagrindurnar úr skápnum. Við höfum tekið saman nokkra eftirminnilega atburði í sögu stofunnar sem hafa mótað okkur og komið okkur á þann stað sem við erum á í dag. Hefst þá lestur.
Screen Shot 2017-03-13 at 15.43.40

Óskýr mynd úr öryggismyndavél sýnir derhúfuklæddan þjóf að verki.


Stóra Toblerone–málið
Einn dularfyllsti atburður í sögu Brandenburgar er hið óupplýsta Toblerone–hvarf, sem átti sér stað skömmu eftir stofnun stofunnar árið 2012.

Málið er bæði stórt og flókið. Á stofunni var stórt Toblerone–súkkulaðistykki sem átti að ljósmynda fyrir auglýsingu, en þegar að myndatökunni kom fannst hvorki tangur né tetur af Tobleróninu.

Spjótin beindust fljótlega að ljósmyndaranum sjálfum, honum Jara, sem benti réttilega á að stuldurinn stríddi gegn hagsmunum hans sem ljósmyndara og því væri líklegra að einhver annar hefði hnuplað því.

Jari hefur þrátt fyrir þetta aldrei náð að sanna sakleysi sitt. Við gerum því ráð fyrir því að hann sé sá seki.

Morðóðir byggingarkranar bíða færis.


Kranaárás

Það skapast ekki oft hættuástand á auglýsingastofum. Stundum gleymist reyndar að panta kaffibaunir og þá þurfa hönnuðirnir að sötra Neskaffi brot úr degi, en það hefur enn ekki valdið slysum á fólki.

Þann 23. nóvember í fyrra kom hins vegar stór og ófrýnilegur byggingarkrani eins og öskrandi grameðla og gerði heiðarlega tilraun til að sprengja veip–ilmandi bubbluna okkar í tætlur.

Við gerðum það sem Íslendingar gera best og fórum með þetta beint í blöðin, en komumst að því í kjölfarið að almenningur fílar duglega iðnaðarmenn mun betur en listhneigðar liðleskjur með krulluskegg.

DSCF2212

Gáttaþefur og Gáttaþefur á góðri stundu.

 

 

Tvöfaldi jólasveinninn
Einn af hinum fjölmörgu árlegu viðburðum hjá okkur á Brandenburg er jólaballið. Í desember ár hvert bjóðum við börnum starfsmanna að koma og borða nammi, dansa í kringum jólatréð og syngja með jólasveininum.

Eitt árið var það hins vegar ekki alveg á hreinu hver ætti að setja sig í samband við umboðsskrifstofu jólasveinanna til að panta einn slíkan.

Börnin á jólaballinu tóku Gáttaþef að sjálfsögðu fagnandi þegar hann mætti, en að sama skapi ráku þau upp stór augu þegar annar Gáttaþefur mætti nokkrum mínútum síðar. Ekki var nokkur leið að greina á milli þeirra félaganna, ef frá er skilin örlítil kaupstaðarlykt af öðrum Þefnum.

Eðlilega skapaðist nokkur ringulreið og þurftu þeir Gáttaþefur og Gáttaþefur að vera snöggir að ákveða næstu skref. Þeir ákváðu að lokum að deila sviðsljósinu og börnin fengu tvöfaldan nammiskammt. Allir sáttir … nema foreldrarnir, sem náðu ekki að svæfa sykurlegið ungviðið fyrr en undir miðnætti.

_DSF1138

Fyrsta ljósmyndin sem náðist af konu á Brandenburg.

Fyrsta konan
Við höfðum heyrt um konur en aldrei séð þær með berum augum þegar ákveðið var að ráða eina slíka til starfa. Stigið var varlega til jarðar og farið að öllu með gát, enda um gríðarlega flókið verkefni að ræða. Það varð úr að Erla nokkur Tryggvadóttir slóst í hópinn og var hún þá ellefti starfskraftur stofunnar.

Ekki leið á löngu þar til hrútasamfélagið á Brandenburg áttaði sig á að þetta væri með öllu óhætt fyrir vistkerfi stofunnar og í raun hið mesta heillaspor. Þrifnaður jókst til muna og sömuleiðis bæði afköst og metnaður. Eftir að tveimur konum var skömmu síðar bætt við varð ljóst að mun meiri líkur væru á að stofan næði fótfestu og árangri til framtíðar, væri hún einfaldlega eingöngu skipuð konum.

Var því strax hafist handa við að útbúa 100 ára áætlun um ráðningu á fleiri konum, sem með tíð og tíma skyldu taka stofuna yfir. Er hún nokkuð á áætlun.

Screen Shot 2017-03-17 at 15.17.23

Sumir kalla það einelti — við köllum það flipp!

Mikliblundur

Það hafði verið háður erfiður NBA leikur síðla nætur í sjónvarpinu og hann Haukur okkar hafði ekki fengið fullan nætursvefn. Hann ákvað því að nota tækifærið í hádeginu þennan örlagaríka föstudag til að fá sér svolítinn lúr.

Þegar Brandenburgarar komu aftur eftir vellukkaðan föstudagsflipper var Haukur því í fastasvefni. Það þýddi bara eitt. Hann var myndaður í snatri og færður óspurður inn í nálægt myndvinnsluforrit. Svefnhauknum var skeytt inn í ólíklegustu aðstæður og afraksturinn sendur út á veraldarvefinn. Það sem engan grunaði hins vegar var að myndasafnið rataði beinustu leið inn á forsíðu netsins, Reddit, með ófyrirséðum afleiðingum.

Haukur varð samstundis „væral“ eins og það heitir — og kallaði fram bros og jafnvel fliss um víða veröld. Erlendir fjölmiðlar höfðu samband og vildu viðtal við blundhetjuna og allt ætlaði bókstaflega um koll að keyra. Í svona tvo daga. Varð síðan allt kyrrt um hríð.

unnamed

Frímann fylgir
Þegar Brandenburg tók til starfa voru fyrstu höfuðstöðvar stofunnar í Grófinni. Þar komum við okkur fyrir á huggulegri hæð og breiddum vel úr okkur. Eitt herbergið hafði þó ekki verið tæmt og ekkert fararsnið var á íbúa þess. Tókst fljótlega mikill vinskapur með Brandenburgurum og þessum óvænta búálfi.

Þetta var enginn annar en sjálfur miðborgarmógúllinn, stuðmennið og þúsundgreiðareddarinn Jakob Frímann Magnússon. Hefur hann æ síðan gegnt virðingarembætti sem verndari stofunnar.

— — —

Þetta voru aðeins örfá augnablik úr fimm ára sögu okkar. Svona það sem taldist prenthæft. Hitt bíður betri tíma. Miðum við 70 ár frá andláti þess síðasta sem kveður. Um leið og við siglum inn í okkar sjötta starfsár viljum við þakka ykkur öllum fyrir lesturinn, samstarfið, veislurnar, faðmlögin og knúsið.

Endum þetta á myndum.