SG

Menningarverðmæti

25. ágúst 2017


SG_-_501_-_Grænt_umslag_-_A-jpeg-_72p1964.

Bítlarnir slógu í gegn í Bandaríkjunum, Nelson Mandela var dæmdur í ævilangt fangelsi og hnefaleikakappinn Cassius Clay breytti nafni sínu í Mohammad Ali. Á Íslandi óku bifreiðar enn á vinstri helmingnum og Ásgeir Ásgeirsson var endurkjörinn forseti Íslands í fjórða og síðasta sinn.

Þetta sama ár stofnaði hinn landskunni tónlistarmaður Svavar Gests útgáfufyrirtækið SG–hljómplötur. Fyrsta plata útgáfunnar kom út rétt fyrir jólin og hét einfaldlega Fjögur jólalög, þar sem þau Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason sungu fjögur erlend tökulög. Þetta var upphaf 20 ára litríkrar útgáfusögu, þar sem fyrirtækið gaf út vel á þriðja hundrað hljómplatna.

Því miður er það þannig að lítið er um stafræna varðveislu íslenskra plötuumslaga — og skiptir þá litlu hvort um er að ræða meira en hálfrar aldar gamlar útgáfur eða plötur sem komu út í kringum síðustu aldamót. En metnaðarfullur plötusafnari að nafni Kristján Frímann Kristjánsson hefur byggt upp veglega Wikipedia–grein um SG–hljómplötur þar sem flest umslögin fylgja í ágætis upplausn.

Það er nú eini tilgangur þessarar bloggfærslu — að vekja athygli á þessu góða framtaki og öllum þessum gömlu og glæsilegu plötuumslögum. Við erum að hanna eitthvað allan daginn og okkur er þetta því mikið hjartans mál. Um leið og við deilum þessu með ykkur viljum við hvetja íslenska tónlistarmenn og útgefendur til að halda vel utan um sín umslög. Þetta eru menningarverðmæti sem skipta ekki síður máli en músíkin.

Smelltu á fyrsta umslagið og skoðaðu þau öll í fullri stærð.