Litla kjaftasagan sem náði Hámarki


Þegar félagarnir, perluvinirnir og „bromance“-bræðurnir Arnar og Ívar komu til okkar með Hámark verkefnið fæddist ofurlítil hugmynd. Hvað ef þeir væru bara alls ekki svo góðir vinir? Hvað ef þær væru óvinir? Væri hægt að fá fólk til að trúa því? Kaupa það? Og kaupa ljúffengan próteindrykk í leiðinni?

Fyrst lákum við því í Séð og heyrt að Arnar og Ívar væru hættir að talast við. Í kjölfarið setti Arnar inn óræðna færslu á Facebook. Síðan var beðið átekta. Og viti menn. Aðrir fjölmiðlar gripu söguna á lofti, fólk pískraði og Barnaland logaði spjallþráðanna á milli. Arnar og Ívar fengu skýr fyrirmæli um næstu skref. Þeir máttu hvorki talast við né hittast. Þegar fjölmiðlar hringdu átti Ívar að gera lítið úr málinu og Arnar að neita að tjá sig um málið.

Viku síðar birtust Hámark auglýsingar þar sem Arnar var búinn að krota yfir Ívar og öfugt. Í framhaldinu birtist gagnvirkur vefborði á Mbl.is þar sem hægt var að láta þessa meintu óvini takast hressilega á.

Öll sár gróa um síðir og þeir félagar sættust í lokahnykk herferðarinnar í sjónvarpsauglýsingu sem var leikstýrt af Berki Sigþórssyni og framleidd af Republik. Auglýsingin var frumsýnd á netinu. Gott ef vinátta þeirra er ekki í Hámarki um þessar mundir.

Vefborði herferðarinnar fékk meira en 13 þúsund smelli á einum degi. Sem er met.