Þarftu að smyrja?

Nýr veitingastaður með nýnorrænu yfirbragði á jarðhæð Hörpu

Við fengum það verkefni að hanna útlit á nýjan veitingastað í Hörpu, þar sem áður var Munnharpan. Auk þess var okkur falið að finna staðnum nafn. Eftir talsverða yfirlegu var ákveðið að nefna hann Smurstöðina, bæði vegna þess að þar er boðið upp á ljúffengt smurbrauð, en ekki síður vegna þess að það er einstaklega skemmtilegt nafn sem staldrað er við.

Það var þó ekki nóg að finna nafn. Ásýnd staðarins var hugsuð frá grunni og nostrað var við smæstu atriði. Allt til að gera staðinn sem mest aðlaðandi og til að búa girnilegum matseðlinum sem besta umgjörð.