
KSÍ
Fyrir Ísland
Með stórkostlegum árangri síðustu ára hafa landslið Íslands vakið athygli heimsbyggðarinnar. Með sterkri liðsheild og óþrjótandi stuðningi þjóðarinnar höfum við sýnt að við getum staðið jafnfætis hvaða liði sem er.
Við höfum nýtt styrkleika okkar og lært af sætum sigrum og bitrum ósigrum, sem hafa mótað okkar gildi. Þessir þættir hafa fært okkur innblástur fyrir nýja ásýnd, sem er í senn táknræn fyrir íslenska arfleifð, sögu og liðsheild.
Verðlaun og viðurkenningar

Knattspyrnusamband Íslands
Síðasta aldarfjórðung hefur tákn landsliðanna verið samsett úr upphafsstöfum KSÍ, fótbolta og íslenska fánanum. Merkið hefur bæði staðið fyrir ímynd sambandsins og landslið Íslands. Eftir því sem starfsemi sambandsins hefur þróast, ímynd Íslands vaxið og árangur landsliðanna aukist, hefur merkið átt erfiðara með að standa undir þessu tvískipta hlutverki. Þörf hefur skapast fyrir merki sem fangar betur grunngildi og uppsprettu liðsandans; ástríðufullt sameiningartákn sem laðar fram styrkleika okkar, sögu og baráttuanda.

Táknmyndir Íslands – Innblástur og saga
Skjaldarmerki Íslands, samþykkt með forsetaúrskurði á lýðveldisdaginn árið 1944, er eitt þekktasta tákn Íslands.
Í lögum er því lýst svo:
Skjaldarmerki Íslands skal vera krýndur skjöldur og á hann markaður fáni Íslands. Skjaldberar eru hinar alkunnu fjórar landvættir, þannig: Dreki, gammur, griðungur og bergrisi.
Landvættir eru yfirnáttúrulegar verur sem bjuggu í landinu við komu landnámsmanna og vernduðu eyjuna afskekktu. Í Landnámabók segir frá því hvernig menn voru varaðir við að sigla að landinu með „gapandi höfuð og gínandi trjónur“ til að styggja ekki landvættirnar.

Nýtt merki – Fortíð mótar framtíð
Nýtt merki er tákn um óbilandi samstöðu, innblásið af arfleifð og mótandi sögu, sem fléttar saman landvættir Íslands á nútímalegan máta. Merkið er margslungið en skýrt og byggir á fyrri skjaldarmerkjum – en stendur eitt og sér sem auðkennandi tákn landsliða Íslands.
Nútímavörumerki þurfa að búa yfir sveigjanleika og geta aðlagað sig á fjölbreyttan hátt. Það sem gerir merkið enn sterkara er að vættirnar geta staðið stakar til þess að mynda heildarumgjörð í vissum tilfellum.


Letur – Nútímalegt handverk
„Vættir“ er sérteiknað fyrirsagnaletur sem styður kröftuglega við merkið með sínum einkennandi lágstöfum. Stafirnir sækja innblástur í íslenskt handverk og er útkoman einstök blanda eldri hefða og nútímalegra stílbrigða. Letrið verður í lykilhlutverki við að festa merkið og ásýnd okkar í huga fólks um heim allan.


Ein samofin heild
Ásýnd og umgjörð landsliðanna hefur tekið miklum breytingum á síðastliðnu ári, bæði með tilkomu nýja útlitsins en einnig með nýjum landsliðsbúningi og öðrum varningi frá PUMA. Þó svo að meginmarkmiðið hafi verið að búa til nýtt merki og ásýnd sem endurspeglar betur gildi landsliðanna, þá var ekki síður verkefnið að geta búið til söluvarning fyrir aðdáendur liðanna um heim allan.
KSÍ og landslið Íslands – Tvö aðskilin vörumerki
Þetta viðamikla verkefni er afrakstur ítarlegrar greiningarvinnu og stefnumótunar KSÍ sem naut m.a. ráðgjafar UEFA í ferlinu. Hluti af þeirri vinnu var að aðskilja merki landsliðanna frá merki knattspyrnusambandsins. Með tveimur aðskildum vörumerkjum styrkjum við og eflum ásýnd sambandsins og landsliðanna enn frekar.
Til að kynna breytinguna og nýja merkið var opnaður vefur þar sem farið var ítarlega í gegnum verkefnið, svo að landsmenn allir gætu kynnt sér það. Uppfærslan fékk mikla athygli um heim allan og fjölluðu margir af stærstu fréttamiðlum heims um verkefnið.
