
Vilja Íslendingar
versla á Íslandi?
Íslenskt — láttu það ganga er nýtt kynningarátak á vegum stjórnvalda og atvinnulífsins sem hefur það að markmiði að hvetja landsmenn til að velja íslenska framleiðslu, hugvit, hönnun, upplifanir og verslun. Með því verður til hringrás sem stuðlar að efnahagslegum stöðugleika, nýjum störfum og verðmætasköpun.
Í undirbúningi átaksins könnuðum við viðhorf neytenda og var markmiðið að kanna undirlagið, stilla af markhópa og setja okkur mælanleg markmið.
Könnunin var framkvæmd af MMR í ágúst 2020 og var fjöldi svarenda 929.
Verðlaun og viðurkenningar
Mikil jákvæðni gagnvart innlendri verslun
Viðhorf Íslendinga í garð íslenskrar verslunar og þjónustu er afar gott og sögðust um 78% vera jákvæðir. Þetta gefur góða vísbendingu um að hægt sé að auka verslun innanlands. Ímyndin er ekki fyrirstaða heldur snýst verkefnið fremur um að styrkja hana og minna á nauðsyn þess að standa saman og beina viðskiptum okkar til innlendra þjónustuaðila.

Hversu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) ert þú almennt gagnvart innlendum verslunum?

Þegar spurt var hvort það skipti fólk máli að kaupa vöru og þjónustu af innlendum aðilum sögðu 58% það skipta miklu máli. Eitt af aðalmarkmiðum herferðarinnar er að fjölga í þessum hópi.
Hversu miklu eða litlu máli skiptir það þig að kaupa vöru og þjónustu hjá innlendum aðilum frekar en erlendum?

Við sjáum að áhersla á að versla við innlenda aðila er minni hjá yngra fólki og karlmönnum og þar er þörf á að styrkja ímynd innlendrar verslunar.
Hversu miklu eða litlu máli skiptir það þig að kaupa vöru og þjónustu hjá innlendum aðilum frekar en erlendum?

Í könnuninni var spurt með opinni spurningu: Hvað, ef eitthvað, fær þig til að kaupa vöru og þjónustu hjá innlendum aðilum frekar en erlendum? 37% svarenda minntust á að ein helsta ástæðan væri sú að mikilvægt væri að styðja við íslenska verslun. Verð skiptir auðvitað alltaf einhverju máli, en samkvæmt könnuninni er skilningur fyrir hærra verði á Íslandi sökum smæðar markaðar og staðsetningar. Það eru aðrir þættir sem skipta miklu máli, t.d. hraði afhendingar, góð þjónusta, áreiðanleiki og öryggi. Þar geta íslenskir aðilar skarað fram úr og náð samkeppnisforskoti.

Hvað, ef eitthvað, fær þig til að kaupa vöru og þjónustu hjá innlendum aðilum frekar en erlendum? (Opin spurning).

Hvar liggja tækifærin?
Við vitum að erfitt er að keppa við verð og vöruúrval stórra erlendra aðila en mikilvægt er fyrir innlenda verslun og þjónustu að nýta þá styrkleika sem við búum yfir. Þegar spurt var um atriði eins og viðmót í verslunum sáum við að álíka margir telja að viðmót í íslenskum verslunum sé svipað og hjá erlendum.
Hvernig finnst þér innlendar verslanir almennt standa sig í samanburði við erlendar verslanir hvað eftirfarandi atriði varðar?
Viðmót starfsfólks í verslunum.

45% svarenda töldu að sendingarhraði á netpöntunum sé betri hjá innlendum verslunum. Eins töldu 33% svarenda að innlendir þjónustuaðilar standi sig betur þegar kemur að áreiðanleika. Hér mætti spyrja hvort innlendar verslanir ættu ekki að skora enn hærra sökum nálægðar við viðskiptavini.

Hvernig finnst þér innlendar verslanir almennt standa sig í samanburði við erlendar verslanir hvað eftirfarandi atriði varðar?
Sendingarhraði á netpöntunum.

Hvernig finnst þér innlendir þjónustuaðilar almennt standa sig í samanburði við erlenda þjónustuaðila hvað eftirfarandi atriði varðar?
Áreiðanleiki.

Þegar spurt var um markaðssetningu voru aðeins 17% sem töldu innlenda aðila gera betur en erlenda. Þegar rýnt er í tölurnar er áskorunin augljós: Styrkja þarf ímynd innlendrar verslunar, sérstaklega hjá ungu fólki sem mælist lægst þegar kemur að því að velja innlenda vöru og þjónustu frekar en erlenda.
Hvernig finnst þér innlendar verslanir almennt standa sig í samanburði við erlendar verslanir hvað eftirfarandi atriði varðar?
Markaðssetning.

Ástæða til bjartsýni
Það er því full ástæða til bjartsýni. Neytendur eru jákvæðir gagnvart innlendum verslunar- og þjónustuaðilum og finnst mikilvægt að styðja við íslenska verslun. Það eru tækifæri í að nýta þá styrkleika sem við höfum til að ná enn betri árangri og koma þeim betur á framfæri.
Við þurfum að nýta okkur þá jákvæðu ímynd sem íslenskar vörur, verslun og þjónusta hafa, byggja ofan á hana og fá fleiri til að beina viðskiptum sínum til innlendra aðila — og láta það ganga.
